Bjarni fór holu í höggi eftir 32 ára bið
Grindvíkingurinn Bjarni Andrésson úr Golfklúbbi Grindavíkur fór holu í höggi í síðustu viku. Draumahöggið sló hann á 7. braut á Húsatóftavelli og er þetta í fyrsta sinn sem Bjarni fer holu í höggi.
„Ég er búinn að spila golf í 32 ár og er búinn að bíða ansi lengi,“ segir Bjarni kátur. Höggið hjá Bjarna var skrautlegt. Hann ætlaði að kýla boltann gegn mótvindum. Hann hitti boltann hins vegar ekki vel.
„Ég ætlaði að slá lágan bolta gegn vindum. Hann flaug kannski fulllágt því hann flaug aðeins tæpu feti yfir kvennateiginn, lenti svo í brekkunni fyrir fram flötina og rúllaði svo inn á flötina, í stöngina og niður.“
Bjarni er einn af heldri kylfingum GG og spilar golf nánast daglega yfir sumartímann. Hann spilar nánast alltaf í sama ráshóp eða með þeim Gunnar Sigurðssyni og Jóni Halldóri Gíslasyni. Ýmsir kylfingar fá svo að flækjast með þeim félögum sem fjórði maður. Mikil gleði var í ráshópnum eftir að boltinn steinlá í holunni.
Bjarni er fimmti kylfingurinn svo vitað sé sem fer holu í höggi á 7. holu á Húsatóftavelli. Það verður teljast merkilegur árangur í ljósi þess að brautin var opnuð fyrir aðeins rúmu ári síðan. „Hún liggur nokkuð vel undir höggi þessi braut. Hún er stutt og í mínu tilfelli þá var holan á miðri flöt.“