Birna Valgerður komin til Keflavíkur
Kvennalið Keflavíkur í Subway deildinni í körfubolta hefur borist mikill liðsstyrkur en miðherjinn Birna Valgerður Benónýsdóttir hefur snúið aftur heim til Íslands og mun taka slaginn með Keflavíkurstúlkum á næsta tímabili.
Birna gerði tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Birna Valgerður hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum frá haustinu 2019. Hún var einn af máttarstólpum Keflavíkurliðsins áður en hún hélt til Bandaríkjanna en tímabilið 2018-2019, áður en hún hélt í nám, skilaði hún 9 stigum og 3,5 fráköstum að meðaltali í leik, aðeins 17 ára gömul.
Magnús Þorsteinsson, formaður Keflavíkur, var að vonum ánægður með nýjustu viðbót Keflavíkurliðsins. „Það er auðvitað frábært að fá Birnu aftur heim. Hún er Keflvíkingur í húð og hár og því dýrmætt fyrir alla stuðningsmenn að sjá hana aftur í Keflavíkurtreyjunni. Það vita allir hvers megnug hún er og getur orðið. Hún er með bunka af hæfileikum þessi stelpa og þrátt fyrir ungan aldur er hún með mikla reynslu, bæði úr úrvalsdeild og með landsliðum, svo við væntum mikils af henni. Það verður því gaman að fylgjast með henni í vetur og auðvitað undir henni sjálfri og þjálfaranum komið að næsta skref hennar á ferlinum verði upp á við, henni sjálfri og liðinu til góða.“
Sjáf getur Birna ekki beðið eftir því að klæðast Keflavíkurtreyjunni aftur. „Eftir þrjú ár í háskólaboltanum úti er ég mjög spennt að vera komin aftur heim til að spila með uppeldisfélaginu. Ég hlakka til að taka aftur þátt í íslenska boltanum. Ég ætla mér að æfa vel í sumar en markmiðið okkar er að vera vel undirbúnar fyrir komandi átök og gera enn betur en í fyrra.“