Föstudagur 1. júní 2007 kl. 12:10
Birna með barni
,,Hann var bara alveg kjaftstopp,” sagði Birna Valgarðsdóttir um þjálfarann sinn Jón Halldór Eðvaldsson þegar hún greindi honum frá því í gær að hún væri með barni. Birna er einn reynslumesti leikmaðurinn í íslenska kvennakörfuboltanum og mun missa af fyrri hluta næstu leiktíðar með Keflavíkurliðinu. Birna er komin fjóra mánuði á leið og er barnskoman sett á þann 14. nóvember næstkomandi.
,,Þetta er fyrsta barnið mitt og við ætlum ekki að fá að vita fyrirfram hvort kynið það er, það kemur bara í ljós í kringum þann 14. nóvember,” sagði Birna í samtali við Víkurfréttir en unnusti hennar er Sigurður Gunnarsson.
Jón Halldór Eðvaldsson kann vel að koma fyrir sig orði og það er ekki oft sem honum svelgist á orðum sínum en í gær varð hann kjaftstopp að sögn Birnu þegar hún greindi honum frá því að hún væri ekki kona einsömul. ,,Það gerist ekki oft að hann Jonni verður kjaftstopp,” sagði Birna hlægjandi og ljóst að hún hefur haft smá gaman af því að sjá þjálfra sinn í þessu ástandi.
Keflavíkurkonur mega því sætta sig við að leika án Birnu í upphafi næstu leiktíðar og þá verður hún, eins og gefur að skilja, ekki í landsliðshópnum fyrir verkefnin í síðari hluta riðlakeppninnar í Evrópukeppninni.
[email protected]