Binda vonir við nýjasta Kanann
Grindvíkingar hafa fengið bandaríska leikstjórnandann Jeff Boschee til liðs við sig til að styrkja hópinn í slagnum sem er framundan um úrslitasætin í Intersport-deildinni. Ekki þarf að fara mörgum orðum um gengi liðsins í vetur en þeir eru nú í 8. sæti og hafa tapað fimm af síðustu sex leikjum.
Boschee lék með Kansas háskólanum ásamt Nick Bradford hjá Keflavík og er þeim víst vel til vina. Hjá Kansas skapaði Boschee sér nafn sem skæð 3ja stiga skytta og þótti öruggur á boltanum.
Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga, sagði leikmanninn lofa góðu miðað við það sem hafði sést til hans á æfingum. „Hann er til í næsta leik sem er á fimmtudag á Sauðárkróki og við bíðum spenntir með að sjá hvað í honum býr.“