Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 6. febrúar 2004 kl. 17:22

Bikarúrslitin: Liðin undirbúa sig fyrir stórleiki

Stórleikirnir sem fara fram í Laugardalshöll á morgun hafa ekki farið fram hjá neinum sem láta sig slíkt varða á annað borð. Keflavík og KR eigast við í kvennaflokki kl. 13:00 [ATH!] og segir Hjörtur Harðarson, þjálfari stúlknanna að mikill hugur sé í sínum leikmönnum sem ætli sér ekkert annað en sigur. „Þær töpuðu niður unnum leik í fyrra og ætla sér ekki að láta slíkt gerast aftur. Svo er bara kominn tími á að Keflavík vinni í kvennabikarnum því þær hafa ekki unnið í fjögur ár.“

Hjörtur bætir því við að engin forföll séu hjá þeim og þær muni koma vel stemmdar í leikinn eftir að hafa vaknað snemma og komið saman í létta pastamáltíð til að koma sér í gírinn fyrir þennan stórleik.

 

Keflvíkingar og Njarðvíkingar munu leiða saman hesta sína kl.16:30  [ATH!] í úrslitaleik sem verður eflaust sögulegur eins og svo margir leikir þessara liða hingað til.

Friðrik Ragnarsson hjá Njarðvík segir gott hljóð í sínum mönnum og leikheimild hafi loksins borist fyrir Larry Bratcher sem mun því vera löglegur á morgun. Brenton Birmingham og Brandon Woudstra verða í leikmannahópi þeirra þrátt fyrir meiðsli. „Það verður bara að kýla á þetta “, segir Friðrik. „Við verðum bara að tjalda því sem til er því við ætlum okkur stóra hluti í þessum leik.“

Leikmenn Njarðvíkur munu hefja undirbúninginn fyrir leikinn með því að hittast í hádeginu á heimili Friðriks þar sem snædd verður sjávarréttasúpa að hætti Þórunnar Friðriksdóttur, móður þjálfarans, og mun tímanum fram að leik varið í að skoða spólur af leikjum Keflvíkinga til að fínpússa áherslurnar fyrir leikinn.

 

Keflvíkingar eru vígreifir fyrir leikinn og segja engin meiðsli í sínum herbúðum. Falur Harðarson, annar þjálfara Keflvíkinga, segir undirbúninginn fyrir leikinn verða á svipuðum nótum og fyrir Evrópuleikina þar sem menn hittast heima hjá einum þeirra og borði saman hádegisverð, en eftir það fer hver til síns heima þar til haldið er í Reykjavík.

„Þetta verður bara afslappað og auðvelt hjá okkur. Það er ekkert tilstand þó að um stórleik sé að ræða, því menn geta bara týnt sér í því. Við förum í þennan leik til að vinna og ekkert annað.“

 

Mikið verður um dýrðir í Höllinni á morgun. Kalli Bjarni, Idol-stjarna með meiru, mun skemmta á milli leikja og í hálfleik í karlaleiknum fer fram skotleikur Lýsingar þar sem tveir heppnir þátttakendur í Lýsingar-leiknum hafa tækifæri til að vinna sér inn 100.000 kr.

 

Vert er að minna áhugasama  á rútuferðirnar sem verða frá Kaffi Duus og Biðskýlinu í Njarðvík kl. 11.30 og 15.00.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024