Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 4. nóvember 1999 kl. 11:08

BIKARÚRSLITALEIKUR Í KÖRFUNNI SEM VAR LEIKINN OF SNEMMA!

Páll tók völdin og Keflvíkingar lágu! Njarðvíkingurinn og landsliðsmaðurinn, Páll Kristinsson, átti stórleik í seinni hálfleik gegn erkifjendunum Keflvíkingum og tryggði bikarmeisturum áframhaldandi velgengni í bikarkeppninni 97-76. Leikurinn var í járnum fram undir miðjan seinni hálfleik en þá tóku Njarðvíkingar sprett með Pál í forystuhlutverkinu báðum megin á vellinum og náðu 73-61 forystu með 6 mínútur til leiksloka. Keflavík fór í ákafa pressuvörn sem Njarðvík leysti ágætlega og Páll kláraði tækifærin sem þannig urðu til. „Mér fannst við leika ágætlega í 28-30 mínútur.Síðustu tíu mínúturnar lékum við mjög illa og erum því úr leik í bikarkeppninni. Nú einbeitum við okkur að komandi leikjum í Íslandsmótinu og Eggjabikarnum”, sagði Hjörtur Harðarson í leikslok. Friðrik Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður. „Ég get ekki annað sagt en að ég er himinlifandi með sigurinn. Það er að vísu hörmulegt hlutskipti fyrir þessi tvö lið að þurfa að mætast svona snemma í keppninni. Við komum í leikinn með ákveðnar áherslur og þótt það hafi ekki nauðsynlega gengið sem skyldi í upphafi hélt liðið einbeitingunni og hlutirnir smullu saman á réttum tíma.” Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, hefur í mörg horn að líta þessa dagana, hraðlestin hans vart mjakast úr sporunum og er liðið í stökustu vandræðum að skora stig. Skytturnar eru að bregðast og ógnin í teignum óstöðug og fylgir að mestu villustöðu Fannars Ólafsssonar. Með hann langtímum á bekknum mætti lýsa stig skoruð í teignum sem dýrategund í útrýmingarhættu. Styrkleiki Njarðvíkinga kom vel í ljós í leiknum, þeir sigruðu eitt besta lið landsins án merkjanlegs framlag Bandaríkjamannsins Jasons Hoover sem náði sér engan veginn á strik.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024