Bikarkeppnin: Tvöfalt hjá Keflavík!
Keflavík er bikarmeistari karla annað árið í röð eftir öruggan sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík, 93-74.
Stemmningin í Laugardalshöllinni fyrir leikinn var frábær og Suðurnesjamenn fjölmenntu til að styðja sín lið og nötraði Höllin oft í látunum frá þeim.
Fyrstu mínúturnar var leikurinn jafn þar sem Larry Bratcher skoraði fyrstu 8 stig sinna manna. Minna fór fyrir honum það sem eftir lifði leiks, en Keflvíkingar náðu smám saman undirtökunum og jókst munurinn stöðugt allan leikinn án þess að Njarðvíkingar fengju rönd við reist.
Brandon Woudstra og Brenton Birmingham mættu til leiks, en þeir hafa verið meiddir að undanförnu og var fyrirfram ekki búist við því að þeir myndu spila. Brenton átti greinilega að bera sóknarleik sinna manna uppi, en hann var stífdekkaður allan tímann og átti erfitt um vik. Hjá Keflvíkingum átti Arnar Freyr Jónsson stórleik og dreif sína menn áfram ásamt því að Derrick Allen átti glimrandi leik undir körfunni þar sem hann og Friðrik Stefánsson hjá Njarðvík áttust við í sögulegu einvígi.
Undir lok fyrri hálfleiks áttu Njarðvíkingar mjög góðan sprett þar sem þeir náðu að minnka muninn í 3 stig, 43-40, en Keflvíkingar svöruðu að bragði og juku muninn í 7 stig fyrir leikhlé.
Í seinni hálfleik breikkaði bilið milli liðanna stöðugt og þrátt fyrir að Keflvíkingar misstu Jón Norðdal og fyrirliðann Gunnar Einarsson útaf með fimm villur varð ekkert úr neinu hjá Njarðvíkingum og má segja að leikurinn hafi verið búinn þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka og munurinn var 17 stig. Lokamínútan leið og öllum var ljóst hvernig færi og þegar flautan gall fögnuðu Keflvíkingar mikið og áhorfendur flykktust út á gólf og fögnuðu sínum mönnum vel og innilega.
Falur Harðarson, annar þjálfara Keflvíkinga, var í skýjunum eftir leikinn. „Þetta var frábært! Við náðum að spila okkar leik og keyra upp hraðann og sóttum stanslaust á þá. Þetta var bara frábær sigur liðsheildarinnar.“
Friðrik Ragnarsson, kollegi Fals hjá Njarðvík, var auðvitað ekki sáttur við leikinn, en játaði að betri aðilinn hefði sigrað. „Þeir voru betri en við allan leikinn. Brenton og Brandon voru greinilega ekki í góðu formi og við söknuðum Palla líka, en við urðum bara að spila úr því sem við höfðum.“
Stigahæstir:
Keflavík: Allen 29/20 frk, Bradford 22, Arnar Freyr 20/3 frk/9 stoð/5 stolnir.
Njarðvík: Brenton 24, Friðrik 18/18 frk/ 7 varin.
Þannig er ljóst að báðir bikararnir verða í fórum Keflvíkinga næsta árið og vilja Víkurfréttir óska þeim til hamingju með frábæran árangur.
Hér má finna tölfræði leiksins