Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarkeppni KKÍ: Njarðvík og Keflavík í úrslitum eftir sigra í dag
Laugardagur 17. janúar 2004 kl. 17:45

Bikarkeppni KKÍ: Njarðvík og Keflavík í úrslitum eftir sigra í dag

Keflvíkingar og Njarðvíkingar munu mætast í úrslitaleik Bikarkeppni KKÍ 7. febrúar næstkomandi eftir góða sigra í dag.

 

SNÆFELL-NJARÐVÍK 69-74

Njarðvíkingar voru ekki líklegir til að tryggja sér áframhaldandi þátttöku í keppninni framan af leiknum í Stykkishólmi. Heimamenn í Snæfelli leiddu allan leikinn allt þar til Njarðvíkingar hrukku loks í gírinn undir lokin og snéru stöðunni sér í hag.

Njarðvíkingar fóru þá að pressa út um allan völl og taka áhættu í leik sínum sem skilaði sér svo sannarlega því bikarhetjan Guðmundur Jónsson skoraði tvær 3ja stiga körfur og Halldór Karlsson, sem leikur sjaldnast betur en undir pressu, bætti annari við. Þegar Njarðvíkingar höfðu stimplað sig svo rækilega inn í leikinn var eins og heimamenn misstu flugið og Njarðvíkingar kláruðu þennan leik með því að skora 19 stig gegn 4 á síðustu sjö mínútum leiksins.

 

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, var ánægður með lok leiksins og hlakkar til að mæta Keflvíkingum á ný í úrslitum, en eins og flestir vita hafði Njarðvík betur gegn nágrönnum sínum í úrslitum Hópbílabikarsins í nóvember síðastliðnum. „Þetta var bara ströggl í gegn, en svo fórum við að taka sénsa og það gekk upp, sem betur fer. Leikurinn gegn Keflavík verður örugglega flottur, en við ætlum okkur að taka þennan titil líka!“

 

Páll Kristinsson átti fínan leik fyrir þá grænu og skoraði 18 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Þá setti Brandon Woudstra 16 stig og Brenton Birmingham 14.

Dondrell Whitmore var stigahæstur Snæfellinga með 16 stig, Lýður Vignisson skoraði 13 og Hlynur Bæringsson skoraði 10 og tók 11 fráköst.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

 

 

GRINDAVÍK-KEFLAVÍK 97-107

Keflvíkingar lögðu Grindvíkinga í Röstinni í Grindavík eftir spennandi lokakafla og mikla baráttu. Keflvíkingar höfðu forystu lengst af, en í þriðja leikhluta komust heimamenn aftur inn í leikinn og voru með fimm stiga forskot fyrir síðasta fjórðung, 83-78. Darrel Lewis átti stórleik í liði Grindvíkinga, en liðsfélagar hans áttu ekki eins góðan dag. Þar á meðal var nýr erlendur leikmaður, Timothy Szatko, sem er pólsk-bandarískur miðherji.

Keflvíkingar sýndu og sönnuðu hversu breiðan mannskap þeir hafa og má segja að það hafi skipt sköpum undir lokin þegar Keflvíkingar náðu undirtökunum á nýjan leik. Gestirnir komu feikilega sterkir inn á lokametrunum, sérstaklega Nick Bradford og Derrick Allen sem tryggðu sigur Keflvíkinga með frækilegri frammistöðu.

 

Guðjón Skúlason hjá Keflavík var hæstánægður með sigurinn eins og gefur að skilja og sagði leikinn hafa unnist undir köfunni að þessu sinni. „Ég er bara í sjöunda himni. Þetta verður frábær úrslitaleikur þar sem það er fátt sem toppar leikina milli Keflavíkur og Njarðvíkur.“ Aðspurður um hvort hann hafi orðið hræddur um að illa færi eftir að Grindvíkingar náðu forystunni í leiknum sagðist hann hafa haft fulla trú á sínum mönnum. „Við erum með það góðan hóp að við áttum nóg eftir í restina, auk þess sem stóru mennirnir hjá okkur áttu mjög góðan leik og bættu fyrir það hvað okkur gekk illa að hitta fyrir utan“, en Keflvíkingar skoruðu einungis þrjár 3ja stiga körfur í öllum leiknum.

 

Nick Bradford skoraði 35 stig í leiknum og landi hans Derrick Allen gerði 33 þrátt fyrir að spila nánast á öðrum fæti eftir að hafa snúið sig á ökkla í upphafi seinni hálfleiks. Þá átti fyrirliðinn Gunnar Einarsson ágætan dag þar sem hann skoraði 22 stig og var að venju drjúgur í vörninni.

Darrel Lewis var allt í öllu hjá Grindavík þar sem hann skoraði 40 stig, en nýjasti liðsmaður þeirra Timothy Szatko, skoraði 15 stig.

 

Víkurfréttir hafa ekki enn náð viðtali við Friðrik Inga hjá Grindavík.

 

Að lokum eru körfuboltaáhugamenn minntir á leik Keflavíkur og ÍS í kvennabikarnum, en sigurvegarinn úr þeim leik mun mæta KR-ingum í úrslitum, en þær lögðu Hauka að velli í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024