Bikarkeppni KKÍ: Keflavíkurstúlkur unnu öruggan sigur á ÍS, mæta KR í úrslitum
Keflavíkurstúlkur tryggðu sér sæti í úrslitum bikarkeppni KKÍ með öruggum sigri á ÍS í gærkvöldi, 76-38. Þar munu þær mæta KR-ingum sem lögðu Hauka á laugardaginn.
Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn í öruggum höndum Keflavíkur, sem var á heimavelli, og er óhætt að segja að Stúdínur hafi aldrei átt möguleika í þessari viðureign. Heimaliðið byrjaði með látum og skoraði fyrstu 11 stig leiksins og kafsigldi gestina. Staðan í leikhléi var 36-12 og seinni hálfleikur bauð upp á sömu dagskrá. Ekkert gekk né rak í sóknartilburðum ÍS þar sem hættulegasti sóknarmaður þeirra, Alda Leif Jónsdóttir, var tekin kyrfilega úr umferð. Það skilaði sér m.a. í því að þær hittu einungis úr um 20% skota sinna og Keflavík vann, eins og fyrr sagði, öruggan sigur og munu mæta KR í úrslitaleiknum sem mun fara fram 7. febrúar.
Stigahæst í Keflavíkurliðinu var hin unga og bráðefnilega María Ben Erlingsdóttir sem skoraði 16 stig þrátt fyrir að hafa einungis leikið hálfan leikinn, en Erla Þorsteinsdóttir kom henni næst með 14 stig.
Þrátt fyrir gæsluna sem hún var í var Alda Leif samt stigahæst ÍS með 12 stig, en hún varði líka heil 6 skot í leiknum.
Hér má finna tölfræði leiksins