Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 16. desember 2003 kl. 21:52

Bikarkeppni Evrópu: Keflavík tapar fyrir Ovarense

Keflavík tapaði í kvöld fyrir portúgalska liðinu Ovarense Aerosoles með 6 stiga mun 99-93. Ovarense hafði forystu eftir fyrsta leikhluta en í þeim næsta náðu þeir að auka muninn upp í 14 stig þegar mest var. Portúgalarnir spiluðu mjög góða vörn og gáfu Keflvíkingum lítið af auðveldum færum þannig að lítið gekk hjá þeim í sókninni. Í hálfleik var staðan 52-42 heimamönnum í vil.

 

Í þriðja leikhluta héngu Keflvíkingar í Ovarense en náðu þó aldrei að minnka muninn verulega og þegar haldið var í síðasta leikhluta höfðu heimamenn 16 stiga forystu, 74-58. Í lokafjórðungnum gekk Keflvíkingum betur og náðu þeir að minnka muninn niður í 8 stig, 84-76, þegar rúmlega 2 mínútur voru eftir af leiknum, og svo niður í 6 undir lokin eftir góða innkomu hjá Arnari Frey.

 

Derrick Allen var stigahæstur Keflvíkinga og skoraði 27 stig og tók 10 fráköst. Nick Bradford var slakur framan af leik en kláraði með 16 stig. Arnar Freyr kom feikilega sterkur inn í síðasta fjórðunginn og skoraði í honum 12 af 14 stigum sínum. Gunnar E. og Jón Norðdal gerðu 11 stig, Falur setti 10 og Magnús Þór einungis 3.

 

Við það er Ovarense komið í efsta sæti riðilsins og Keflavík er í öðru. Keflavík leikur sinn síðasta leik í riðlinum á fimmtudagskvöld gegn Madeira og nægir sigur ef Toulon vinnur Ovarense á sama tíma. Toppsæti riðilsins tryggir að Keflvíkingar fái heimavallarrétt í úrslitakeppninni, sem hefur sannað mikilvægi sitt í þessari keppni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024