Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarinn: Suðurnesjaliðin unnu öll
Föstudagur 11. júní 2004 kl. 22:46

Bikarinn: Suðurnesjaliðin unnu öll

Suðurnesjaliðin þrjú sem léku í bikarkeppninni í kvöld unnu öll leiki sína og komust áfram í 16-liða úrslit.

REYNIR-ÞÓR 1-0
Þar bar hæst glæsilegan heimasigur Reynis á Þór Akureyri, 1-0, en Reynir leikur í þriðju deild á meðan þór er í þeirri fyrstu.
Heimamenn vörðust fimlega allan leikinn þar sem þeir héldu vel aftur af sóknartilburðum Norðanmanna og sóttu þess á milli með hættulegum skyndisóknum.

Á 71. mínútu dró til tíðinda þegar Vilhjálmur Skúlason skoraði sigurmark Reynis og náðu Þórsarar ekki að svara áður en tíminn rann út.

„Við spiluðum skynsamlega í kvöld og þeir áttu ekki neitt svar“, sagði Gunnar Oddsson, þjálfari Reynis, í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Það er alltaf vanmat í gangi þegar menn eru að spila gegn liðum í lægri deildum, en strákarnir mínir stóðu sína pligt með sóma í leiknum.“
Gunnar bætti því við að honum væri nokkuð sama um það hverjum þeir mættu í næstu umferð, enda væru þeir í þessari keppni til að hafa gaman af henni. „Nú fáum við vonandi sjálfstraust til að taka okkur á í deildinni og komast upp.“

BREIÐABLIK-NJARÐVÍK 0-2
Blikar máttu enn bíta í það súra epli að tapa gegn Njarðvík og í þetta skiptið var það á heimavelli. Lokatölur voru 0-2 eftir að Alfreð Jóhannsson og Guðni Erlendsson skoruðu í seinni hálfleik.

Njarðvík hristi af sér slyðruorðið eftir tvo tapleiki í röð í 1. deildinni og lék mjög vel. Þeir komust meira að segja upp með að misnota vítaspyrnu í fyrri hálfleik þar sem fyrirliðinn Bjarni Sæmundsson var að verki.

„Þetta var góður leikur og sanngjörn úrslit“, sagði Helgi Bogason hjá Njarðvík eftir leikinn. „Það er fínt að komast á réttu brautina eftir tvö töp og það er alltaf skemmtilegt að komast áfram í bikarnum, því lengra því betra.“

SELFOSS-GRINDAVÍK 0-2

Grindavík vann sannfærandi sigur á Selfossi í kvöld, 0-2.
Slavisa Kaplanovic skoraði fyrsta mark leiksins á 38. mín og fyrirliðinn Sinisa Valdimar Kekic bætti öðru við í seinni hálfleik.
Úrslitin koma ekki á óvart þar sem Selfoss leikur í 2. deildinni og Grindavík í úrvalsdeild en Selfyssingar létu sog þó ekki baráttulaust. „Þeir voru á fullu allar 90 mínúturnar eins og öll neðri deildar lið gera“, sagði Kekic eftir leikinn og bætti því við að völlurinn hafi verið mjög slæmur. „Þannig var þessi leikur mjög erfiður, en sigurinn var samt aldrei í hættu“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024