Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Bikarinn: Neisti í Grindavíkurliðinu
Laugardagur 13. febrúar 2016 kl. 08:15

Bikarinn: Neisti í Grindavíkurliðinu

Skúladætur í lykilhlutverki að mati spámanna

Ríkjandi bikarmeistarar Grindavíkur mæta Íslandsmeisturum Snæfells í bikarúrslitum sem fram fara síðar í dag. Við fengum vel valda spekinga til þess að spá í spilin fyrir stórleik helgarinnar. Grindavíkurkour eru eina liðið af Suðurnesjum sem spilar til úrslita í meistaraflokki en alls eigum við níu lið sem leika til úrslita þegar horft er til yngri flokka.

Tengd frétt: Vörn og barátta munu skila sigri

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Baráttan er lykilatriði

Sverrir Þór Sverrisson fyrrum þjálfari Grindvíkinga:
„Þessi bikarúrslitaleikur verður án efa jafn og skemmtilegur þar sem bæði liðin eru mjög vel mönnuð.  Snæfell hefur verið besta liðið í vetur en Grindavík er alls ekki með síðra lið, þær hafa verið í miklu meiðslaveseni en nú eru allar orðnar heilar og liðið hefur verið að spila vel undanfarið.

Ég er á því að Snæfell sé með eitt vinnusamasta liðið í deildinni með systurnar Gunnhildi og Berglindi fremstar í flokki ásamt Keflvíkingnum Bryndísi Guðmundóttur og Haiden Palmer. Það er því lykilatriði fyrir Grindavík að þær berjist meira en Snæfell í öllum fráköstum, lausum boltum og leyfi Snæfell ekki að spila sinn leik, þær þurfa að vera með Haiden í strangri gæslu allan leikinn því hún er frábær leikmaður. Einnig verða Grindavíkurstelpur að vera fljótar tilbaka í vörn því Snæfell skorar mikið úr hraðaupphlaupum.

Grindavík þarf að leita mikið inn í teig að Whitney Frazier því hún er sterk þar og getur safnað villum á Snæfell ásamt því að opna fyrir skyttur Grindavíkur. Grindavík er ríkjandi bikarmeistari og þær vita hvað það er mikið í húfi á meðan Snæfell er Íslandsmeistari síðustu tveggja ára en hefur ekki enn náð að landa bikarmeistaratitlinum. Ég ætla að skjóta á nauman Grindavíkursigur þar sem Petrúnella Skúladóttir verður áberandi á báðum endum vallarins og leiðir sínar stelpur til sigurs ásamt Whitney Frazier.“

Neisti í Grindavíkurliðinu

Erla Reynisdóttir fyrrum leikmaður Keflavíkur og Grindavíkur:
„Ég tel að Snæfell sé líklegri til að sigra leikinn en hinsvegar er einhver neisti í þessu Grindavíkurliði sem er mjög vel mannað og hafa þær sýnt það í vetur að þær eiga í fullu tré við þessi lið í efstu sætunum. Án þess að setja of mikla pressu á leikmenn þá tel ég að þetta velti svolítið á þeim Skúladætrum hjá Grindavík.

Petrúnella er sá leikmaður hjá Grindavík sem er hokin af reynslu og hún hefur farið áður í Höllina og gert þetta allt saman og það oftar en einu sinni. Hrund systir hennar þó ung að árum sé, er framtíðin hjá Grindavík. Þetta er ekta leikur fyrir slíkan leikmann til að springa út og eiga góðan leik. Þrátt fyrir að ég telji Snæfell líklegri ætla ég að spá Grindavíkursigri með 5 stigum eftir baráttuleik.“