Bikarinn fer ekki neitt
Segir Grindvíkingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Hefur leikið frábærlega í vetur - atvinnumennska í kortunum eftir tímabilið
Miðherjinn stæðilegi hjá Grindavík, Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur átt frábært tímabil með þeim gulklæddu. Ísafjarðartröllið virðist í sínu besta formi og ef áfram heldur sem horfir mun hinn 25 ára gamli leikmaður fljótlega leggja land undir fót.
Sigurður segist hafa íhugað þau mál og hefur alls ekki gefið atvinnumannadrauminn upp á bátinn. Þau mál verði skoðuð eftir tímabilið. Fyrst þarf að klára ákveðið verkefni. „Við ætlum að vinna þessa úrslitakeppni, þannig að hún leggst afar vel í okkur,“ sagði Sigurður þegar hann var spurður út í komandi úrslitakeppni í Domino's deildinni. Liðið hefur verið á góðu skriði síðan vandamál með erlenda leikmenn voru leyst og lykilmenn náðu að jafna sig af meiðslum.
Í vikunni var Sigurður valinn í úrvalslið seinni umferðar Domino’s deildarinnar og hann var besti maður vallarins þegar Grindvíkingar unnu bikarkeppnina fyrir skömmu.
Sigurður setti sér ákveðin markmið fyrir tímabil sem hann segist ekki alveg hafa náð. Hann er þó ánægður með sinn leik, þá sérstaklega á seinni hluta tímabils. Líkamlega er Sigurður líklega í sínu besta formi en það þakkar hann stífum æfingum hjá handboltakappanum Einari Hólmgeirssyni síðasta sumar. En er Sigurður að toppa núna? „Ég ætla að vona að ég sé ekki ennþá búinn að toppa, það væri frekar leiðinlegt. Ég hugsa að það sé nú eitthvað eftir á tankinum,“ en líklegast er það rétt enda hefur frammistaða miðherjans farið stigvaxandi í vetur og eru líklega bestu árin í boltanum framundan.
Hefur þroskast mikið í Grindavík
Sigurður hefur náð sér í tvo Íslandsmeistaratitla, tvo deildarmeistaratitla og bikarmeistaratitil síðan hann kom til Grindavíkur frá Keflvíkingum árið 2011. Á tíma sínum í Röstinni segist Sigurður hafa bætt sig töluvert sem leikmaður. „Ég lærði mikið í Keflavík en ég hef þroskast mikið hérna í Grindavík og ég hugsa að ég lesi leikinn og liðsfélaga mína betur en ég gerði. Ég get alls ekki sagt að ég sjái eftir því að hafa komið hingað,“ segir Sigurður léttur í bragði.
Erum með stekasta hópinn
Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára og eru með gríðarlega sterkan hóp. „Ég tel að við séum með besta hópinn á landinu. Kannski ekki með hæfileikaríkustu einstaklingana en við erum samheldinn hópur sem þekkjum vel inn á hvern annan.“ Grindvíkingar taka á móti Þórsurum í kvöld á heimavelli sínum en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Sigurður segir að Grindvíkingar séu ekki mikið að velta öðrum liðum fyrir sér heldur hafi augun á þeim stóra í bikarskápnum í Röstinni. „Við viljum bara halda honum heima, hann fer ekki neitt,“ sagði Ísfirðingurinn sterki í Grindavíkurliðinu að lokum.