Bikarinn 1997: Dramatík gegn Eyjamönnum
VEfTV - Sjáðu vítaspyrnukeppnina og markið hjá Gesti Gylfa
Árið 1997 eftir 22 ára bið urðu Keflvíkingar Bikarmeistarar eftir að hafa leikið til þrautar gegn Eyjamönnum. Leika þurfti tvisvar en í fyrri leiknum skoraði Gestur Gylfason jöfnunarmark í framlengingu eins og sjálfsagt margir muna eftir. Í síðari leiknum þurfti vítaspyrnukeppni til þess að skera úr um sigurvegara.
Bikarinn fór á loft eftir 5-4 sigur í vítakeppni eftir markalaust jafntefli í aukaleik um bikarinn. Í fyrri leiknum var staðan 0-0 eftir venjulegan leiktíma en bæði lið náðu að skora í framlengingu. Fyrst skoruðu Eyjamenn á 99. mínútu en þar var á ferðinni Leifur Geir Hafsteinsson með umdeilt mark. Svo virtist sem Bjarki Guðmundsson markvörður Keflvíkinga hefði haft hönd á boltanum og að á honum hefði verið brotið. Jöfnunarmark Keflvíkinga var svo í meira lagi sögulegt og sjálfsagt mörgum ennþá í fersku minni. Á síðustu mínútu leiksins átti Adolf Sveinsson fyrirgjöf sem barst til Gests Gylfasonar. Gestur lagði boltann fyrir sig og lét vaða að marki. Ekki hitti hann boltann nægilega vel og hafði hann viðkomu í varnarmanni á leiðinni að markinu. Gunnar Sigurðsson í marki ÍBV virtist svo hafa handsamað boltann en ekki vildi betur til en að boltinn skrúfaðist úr höndum hans, í gegnum klofið á honum og þaðan í netið. Eftir það hefur margur Keflvíkingurinn kallað þann ágæta markvörð Gunnar „undir“ Sig.
Í síðari leiknum var leikið til þrautar en staðan var 0-0 að loknum venjulegum leiktíma. Á lokamínútum leiksins fengu Eyjamenn tækifæri til þess að klára leikinn en þá var dæmd vítaspyrna á Bjarka Guðmundsson hinn unga markvörð Keflvíkinga. Hann gerði sér lítið fyrir og varði frá Hlyni Stefánssyni með tilþrifum. Hlynur fékk svo að líta rauða spjaldið í framlengingu og Jóhann Birnir hefði getað tryggt sigurinn þegar skot hans hafnaði í stöng Eyjamanna. Því varð að grípa til vítaspyrnukeppni.
Eysteinn Húni Hauksson skoraði úr fyrstu spyrnunni og kom Keflvíkingum á bragðið eftir að Eyjamenn höfðu skorað. Markvörðurinn Bjarki Guðmundsson gerði sér lítið fyrir og varði svo spyrnu Tryggva Guðmundssonar. Jóhann B. Guðmundsson skoraði svo örugglega úr annari spyrnu Keflvíkinga. Fyrirliðinn Jakob Jónharðsson lét svo verða frá sér næstu spyrnu Keflvíkinga og staðan því 2-2 eftir þrjár spyrnur frá hvoru liði. Adolf Sveinsson fór næstur Keflvíkinga á punktinn og skoraði örugglega. Gunnar Oddson sá svo um að jafna aftur 4-4 og spennan orðin óbærileg enda bráðabani. Bjarki markvörður varði aftur glæsilega og fór langleiðina með að tryggja bikarinn til Keflavíkur. Fram steig Kristinn Guðbrandsson, varnarmaðurinn harðskeytti hjá Keflavík. Hann setti boltann ískaldur í hornið og fagnaði með glæsibrag. Hetja leiksins var Bjarki Guðmundsson 21 árs sem óvænt hafði komið inn í mark Keflvíkinga á miðju sumri eftir að Ólafur Gottskálksson fór í atvinnumennsku.