Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarhetja eftir baráttu við erfið höfuðmeiðsli
Sigurbjörg var búin að spila nokkra leiki áður en kom að bikarúrslitum. Mesta stressið var því horfið áður en komið var í Höllina.
Miðvikudagur 1. mars 2017 kl. 10:05

Bikarhetja eftir baráttu við erfið höfuðmeiðsli

Þungt höfuðhögg hélt Sigurbjörgu frá skóla og íþróttum í langan tíma

Sigurbjörg Eiríksdóttir var á dögunum valinn besti leikmaður í bikarúrslitaleik 10. flokks kvenna í körfubolta. Það er auðvitað afrek út af fyrir sig - en það sem gerir afrek Sigurbjargar enn merkilegra er að í sömu viku hafði hún útskrifast af Barnaspítala Hringsins vegna alvarlegra höfuðmeiðsla sem héldu henni frá körfubolta í rúma þrjá mánuði.

Hin 16 ára gamla Sigurbjörg er efnileg íþróttakona og æfir körfu og fótbolta og hefur tekið þátt í landsliðsúrtökum í báðum greinum. Hún hefur enn ekki ákveðið hvora íþróttina hún leggur fyrir sig en stefnir á að ná langt. Hún var einmitt á landsliðsæfingu í fótbolta þegar hún varð fyrir meiðslunum. Þannig atvikaðist að hún fékk olnbogaskot í gangaugað en fann ekki mikið fyrir því í fyrstu. Hún var þó mikið þreytt og tveimur dögum síðar fann hún að mátturinn í vinstri hlið líkamans fór að þverra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gat ekki verið án sólgleraugna og svaf mikið

Hún leitaði því læknisaðstoðar og dvaldi í nokkra daga á sjúkrahúsi þar sem hún var skoðuð í bak og fyrir.  Ljóst var að meiðslin voru talsvert alvarleg og Sigurbjörg var frá öllum æfingum og missti talsvert úr skóla næstu mánuðina. „Fyrsta mánuðinn eftir atvikið gat eg ekki verið án sólgleraugna, var með mikinn höfuðverk og svaf mjög mikið og gat þess vegna ekki verið mikið í skólanum. Ég er orðin nokkuð góð í dag en það er enn hlutir sem vantar upp á og það kemur vonandi bráðum,“ segir Sigurbjörg. Hún þurfti að leita til sjúkraþjálfara til þess að ná tökum á jafnvæginu aftur. Næstu sex mánuðina fór hún svo reglulega í eftirlit hjá taugalækni.

Eftir að hafa fengið grænt ljós frá læknum mætti Sigurbjörg galvösk til leiks þegar Keflvíkingar léku til úrslita gegn grönnum sínum í Njarðvík í úrslitum bikarkeppni 10. flokks á dögunum. Þar gerði hún sér lítið fyrir og var kjörin maður leiksins. Skoraði 12 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á 29 mínútum í 48:40 sigri Keflavíkur. Sigurbjörg er góð í vörninni og var á síðasta lokahófi valin besti varnarmaðurinn í sínum flokki. Hörkutólið Sigurbjörg hefur æft fótbolta í tíu ár og körfubolta í fimm ár. Hún er uppalin í Grindavík en fjölskyldan fluttist til Reykjanesbæjar síðasta vor en hún hefur æft með Keflavík undanfarin þrjú ár.