Bikarhelgi í körfunni
Fjöldi leikja í Lýsingarbikarkeppninni í körfuknattleik fer fram um helgina. Bæði í karla- og kvennaflokki. Stærsti slagurinn í báðum flokkum verður vafalítið viðureign KR og Grindavíkur í DHL-Höllinni en þegar liðin mættust í annarri umferð Iceland Express deildarinnar hafði Grindavík góðan 109-100 sigur gegn Íslandsmeisturunum í mögnuðum leik. Liðin mætast á sunnudag kl. 19:15 í Reykavík.
Annað kvöld mætast grannarnir Keflavík og Njarðvík í kvennaflokki í Sláturhúsinu kl. 19:15 og verður á brattann að sækja fyrir Njarðvíkinga sem ákváðu eftir hlé á starfi liðsins að tefla fram liði í vetur. Keflavík lék til úrslita gegn Haukum í bikarnum í fyrra sem var mögnuð skemmtun en Haukar höfðu nauman sigur í þeim leik. Þá mætast einnig á föstudagskvöld Haukar B og Grindavík að Ásvöllum kl. 21:00. Á laugardag fær Keflavík B svo það erfiða verkefni að mæta Íslandsmeisturum Hauka að Ásvöllum kl. 17:00.
Keppni í karlaflokki hefst einnig annað kvöld en Suðurnesjaliðin í bikarnum leika á laugardag og sunnudag. Þróttur Vogum mætir Fjölni í Grafarvogi kl. 16:00 á laugardag. Þá halda Keflvíkingar að nýju Norður í land er þeir mæta Tindastól á sunnudag kl. 17:00 en Keflavík rétt marði sigur gegn Stólunum í síðustu umferð Iceland Exrpess deildarinnar. Þá mætast Stjarnan og Njarðvík í Ásgarði kl. 19:15 á sunnudag en Njarðvíkingar eiga harma að hefna gegn Stjörnunni þar sem grænir lágu í Ljónagryfjunni gegn nýliðunum fyrr á þessari leiktíð.