Bikardraumurinn úti hjá Grindvíkingum
Grindvíkingar máttu þola tap gegn Íslands - og bikarmeisturum KR í undanúrslitum bikarkeppni karla í fótbolta. Lokatölur urðu 0-1 en það var fyrrum Skagamaðurinn Gary Martin sem skoraði markið sem skildi liðin að undir lok fyrri hálfleiks.
KR-ingar byrjuðu af krafti og settu nokkra pressu á vörn Grindvíkinga sem stóðst þó álagið vel. Talsvert jafnræði var síðan með liðunum og ekki mátti sjá að liðin væru á sitt hvorum enda Pepsi-deildarinnar.
Það er fátt sem hægt er að segja um síðari hálfleik og ekki mikið markvert sem gerðist. Grindvíkingar gerðu hvað þeir gátu til þess að blása krafti í sóknarleikinn og einhverjir vildu fá víti þegar Tomi Ameobi féll í teig KR undir lokin en það hefði verið ansi ódýrt.
Draumur Grindvíkinga um að komast í úrslitaleikinn á Laugardalsvelli er því úti en síðast lék liðið þar 1994. Framundan er erfið botnbarátta í Pepsi-deildinni.