Bið fólk um að taka mig úr fantasy-liðinu
„Það má gera ráð fyrir því að þetta verði léttur og skemmtilegur leikur. Kristján vinur minn vill spila skemmtilegan bolta eins og við og því má búast við fjörugum leik,“ segir Guðmundur Steinarsson framherji Keflvíkinga en þeir fara á Hlíðarenda í kvöld og mæta þar Kristjáni Guðmundssyni og Valsmönnum. Með sigri geta Keflvíkingar farið upp í fjórða sæti en liðið er þessa stundina í því fimmta. „Við ætluðum fyrir mót að gera okkar heimavöll að vígi en við töpuðum gegn Stjörnunni á heimavelli og því verðum við að vinna það upp á útivelli, það væri ágætt að byrja á því núna,“ hann segist jafnframt vera svekktur með tapið gegn Stjörnunni og einnig gegn ÍA uppi á Skaga. „Þar hefði ég viljað ná í stig en svona heilt yfir þá er ég alveg þokkalega sáttur.“
„Það er dálítið verið að breyta um leikstíl frá síðustu tveimur árum og svo eru tveir ungir menn, þeir Frans (Elfarsson) og Arnór Ingvi (Traustason) að stjórna spilinu á miðjunni. Það er alltaf áhætta að fá svo unga leikmenn í þessi hlutverk en þeir hafa verið að standa sig mjög vel og það hefur í raun tekið styttri tíma að púsla liðinu saman en ráð var gert fyrir.“
Hefðu þessir leikmenn átt að fá sénsinn í U-21 liði Íslands?
„Það hefur nú oft verið þannig að þeir sem hafa verið að spila stór hlutverk í sínum liðum hafa verið að fá séns í landsliðunum. Mér finnst alla vega skrýtið að þeir skuli ekki hafa verið kallaðir inn í hópinn a.m.k. Það er oft verið að velja menn sem eru á samningi erlendis bara af því að þeir eru þar. Þegar farið er að grafa dýpra þá eru þeir kannski ekkert að spila að ráði. Ég hefði alltaf tekið mennina sem eru í leikstandi og eru að skila sínu hérna heima.“
En hvernig er það, eiga menn að halda þér í fantasy-liðinu, fara mörkin að detta inn?
„Ég segi nú yfirleitt fólki að taka mig úr liðinu, svo þegar ég fer að skora þá fæ ég einn öll stigin,“ segir Guðmundur og hlær. Að lokum vildi Guðmundur hvetja fólk til þess að mæta með rútunni á leikinn og spara sér bensínið.