Ber er hver á baki?
Formaður knattspyrnudeildar Reynis varð að standa við stóru orðin á laugardag þegar deildarkeppninni í 2. deild lauk. Þrátt fyrir 2-1 tap Reynismanna gegn Fjarðabyggð skellti formaðurinn sér á „berbak“ á þessum fína mótórfáki.
Sigursveinn Bjarni Jónsson, formaður ksd Reynis, gerði fyrst garðinn frægan þegar Reynismenn komust upp í 2. deild. Þá hljóp Sigursveinn á þvengnærbuxum um Gróttuvöll eftir 4-1 sigur Reynismanna á Gróttu.
„Ef við hefðum ekki komist upp í 2. deild þá hefðu strákarnir þurft að borga mér kassa af öli hver. Í formannsræðu minni á árshátíð deildarinnar í fyrra sagði ég að ég myndi ekki nota þvenginn ef Reynir kæmist upp í 1. deild,“ sagði Sigursveinn. Þvengurinn var svo boðinn upp á árshátíðinni í fyrra og fór fyrir heilar 15 þúsund krónur. „Nú er bara spurning hvort við bjóðum upp hjálminn eða mótorhjólið,“ sagði Sigursveinn léttum rómi en þegar flautað var til leiksloka í Sandgerði á laugardag kom Sigursveinn á „berbaki“ með Sandgerðisfána við hönd. Uppátækið vakti mikla athygli og jafnvel kona Sigursveins lagði leið sína á völlinn til þess að berja dýrðina augum. „Þetta var ekkert í samanburði við það að hlaupa í 30 vindstigum á Gróttuvelli, þá var ég fjólublár en á laugardag var ég rétt aðeins rauður.“
Flestir velta vöngum yfir því hvað Sigursveinn muni taka til bragðs ef Sandgerðingar ynnu sér þátttökurétt í Landsbankadeild en Sigursveinn sagði það aðalatriði að Reynir héldi sér uppi í 1. deild. „Það er reyndar verið að skora á mig í annað veðmál ef við höldum okkur uppi, þessa dagana er ég bara með höfuðið í bleyti,“ sagði Sigursveinn að lokum.
[email protected]