Begþór Ingi skoraði sigurmarkið nánast með síðustu snertingu
Reynismenn unnu sigur á Ægi í annarri deild karla í knattspyrnu þegar liðin áttust við í Þorlákshöfn í gær. Reynir hefur átt erfitt uppdráttar í sumar og sigurinn því kærkominn en liðið er í fallsæti.
Bergþór Ingi Smárason lék stórt hlutverk í Reynisliðinu í gær en hann skoraði bæði mörk liðsins, hið fyrra á áttundu mínútu en Ægismenn jöfnuðu leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks (45'). Bergþór var aftur á ferðinni og skoraði úrslitamarkið nánast með síðustu spyrnu leiksins, á sjöundu mínútu uppbótartíma.
Með sigrinum komust Reynismenn upp úr botnsætinu, tímabundið hið minnsta, en eru ennþá í fallsæti. Reynir er í ellefta sæti með átta stig, KF er með sjö stig á botninum en á leik til góða og KFG er í tíunda sæti, þremur stigum fyrir ofan Reyni. Umferðinni lýkur á morgun og þá mætast KFG og KF í mikilvægum leik í fallbaráttunni.
Ægir - Reynir 1:2
Mörk Reynis: Bergþór Ingi Smárason (8' og 90'+7).
Mark Ægis: Bjarki Rúnar Jónínuson (45').