Batamerki á Keflvíkingum - jafntefli gegn Fjölni
„Við getum alla vega sagt að það séu batamerki í baráttu liðsins. Menn voru að berjast allan tímann og markið kom þannig,“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson sem kom inn í byrjunarlið Keflavíkur í leik liðsins gegn Fjölni í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á Nettó-vellinum í kvöld. Lokatölur urðu 1-1 sem verða að teljast sanngjörn úrslit.
Martin Hummervoll skoraði jöfnunarmark Keflavíkur fljótlega í síðari hálfleik eftir að gestirnir höfðu náð 1-0 forystu með mögnuðu marki tveimur mínútum fyrir leikhlé.
Jóhann sagði að það hefðu verið mikil vonbrigði að fá mark á sig rétt fyrir leikhlé en það hefur gerst oft í sumar. „En í stað þess að hengja haus þá náðum við að halda haus og með mikilli baráttu að jafna leikinn. Frans (Elvarsson) var frábær þegar hann tók þennan svaka sprett, vann boltann á kantinum og gaf svo þessa flottu sendingu fyrir. Framlag hvers og eins er svo mikilvægt. Ef það er ekki til staðar getum við gleymt þessu,“ sagði þjálfarinn og leikmaðurinn en Martin Hummervoll skallaði boltann í netið eftir þessa sendingu frá Frans sem Jóhann lýsti. Sannarlega vel að verki staðið.
Þetta var jafn leikur og baráttan virkilega betri og meiri en oft áður. Fjölnismenn voru fastir fyrir og þéttir í vörninni og heimamönnum gekk illa að búa til færi en voru þó nokkrum sinnum nálægt því en án þess þó að uppskera mark.
Meiðsli hafa tekið drjúgan toll af Keflvíkingum í sumar og Jóhann segir að þetta sé búið að vera sagan endalausa, mörgum sinnum hafi þeir þurft að breyta liðinu degi fyrir eða á leikdegi. Í dag þurfti Alexander Magnússon að fara úr liðinu á leikdegi vegna meiðsla. Í síðasta leik meiddist Farid á upphafsmínútunum og hann var utan leiks í þessari viðureign eins og fleiri leikmenn, m.a. Sindri Snær Magnússon, Hörður Sveinsson og fyrirliðinn Haraldur Guðmundsson. Í leiknum notuðu heimamenn allar þrjár skiptingar. Leonard Sigurðsson kom inn á fyrir Jóhann Birni, en nítján ár eru á milli kappanna. Leonard er fljótur og skapar alltaf hættu. Tveir aðrir ungir heimamenn komu inn á, þeir Daníel Gylfason fyrir Chukwudi Chijindu og Bojan Stefán Ljubicic fyrir Magnús Þóri Matthíasson. Allir ungir heimamenn.
En er þetta vonlaus barátta fyrir tilveru í deildinni Jóhann?
„Þetta er vissulega erfitt en ekki vonlaust. Við erum Keflvíkingar og höldum áfram að berjast,“ sagði hann.
Einar Orri Einarsson og Frans Elvarsson voru bestu leikmenn Keflavíkur í leiknum og undirbúningur marks Keflavíkur hjá Frans var sérlega skemmtilegur og yljaði stuðningsmönnum liðsins en það hefur ekki verið mikið um slíkt í sumar. Liðið hefur aðeins unnið einn leik, gegn ÍBV og er með sex stig, sjö stigum á eftir næst neðsta liðinu, Leikni og átta stigum á eftir ÍBV.
Næsti leikur hjá Keflavík er gegn Fylki á útivelli 17. ágúst nk.
Frans Elvarsson vann boltann úti á hægri kantinum og gaf flotta sendingu fyrir markið þar sem Hummervoll kláraði dæmið og skoraði (mynd að neðan).