Báru enga virðingu fyrir Íslandsmeisturunum
Keflvíkingar sýndu hörkuleik og gerðu jafntefli við Íslandsmeistara Vals í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu fyrr í dag. Með jafnteflinu heldur Keflavík þriggja stiga forskoti á Tindastól sem er í næstneðsta sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu.
Eins og við var að búast átti Keflavík við ramman reip að draga en Valskonur hafa verið afgerandi besta lið deildarinnar í ár. Valur byrjaði með þónokkrum látum og skoruðu glæsimark strax í byrjun leiks þegar Ída Marín Hermannsdóttir lét vaða utan teigs og hamraði boltann í samskeytin, gersamlega óverjandi fyrir Tiffany í marki Keflavíkur (3').
Þrátt fyrir mótlætið voru Keflvíkingar ekkert á þeim buxunum að gefast upp og örfáum mínútum síðar komst Aerial Chavarin í ágætis færi en skot hennar fór rétt fram hjá marki Vals. Þar mátti litlu muna að Keflavík hefði jafnað.
Valur stjórnaði leiknum að mestu leyti en varnarleikur Keflvíkinga var agaður og þær sóttu hratt þegar færi gáfust.
Á 35. mínútu átti Dröfn Einarsdóttir góða sendingu fyrir mark Vals þar sem Aerial Chavarin var mætt og náði skalla að markinu, boltinn var hár og virtist vera á leið yfir markið en féll undir þverslána og Keflavík búið að jafna.
Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri, Valur var meira með boltann en Keflavík varðist af hörku og beitti skyndisóknum. Sterk vörn Keflvíkinga kom í veg fyrir að Valskonur næðu að skapa sér færi og Tiffany Sornpao, markvörður Keflavíkur, var á tánum og hirti allar sendingar sem komu nálægt markinu.
Engin mörk voru skoruð í síðari hálfleik og frammistaða Keflavíkur gegn þessu sterka liði alveg mögnuð. Þær léku án fyrirliða síns, Natasha Anasi, í dag sem tók út leikbann og verður klár í slagin um næstu helgi þegar Keflvíkingar leika gegn Þór/KA í lokaumferð deildarinnar.
Eftir leiki dagsins er ljóst að Fylkir fellur en baráttan stendur enn á milli Keflavíkur og Tindastóls um hvort liðið fari niður með Fylkiskonum. Stigið í dag var gríðarlega mikilvægt í fallbaráttunni því Tindastóll sigraði Selfoss og munar nú einungis þremur stigum á liðunum, Keflvíkingum dugar því jafntefli í síðasta leik til að halda sæti sínu í deild þeirra bestu. Jafnvel þótt Keflvíkingar tapi lokaleiknum þá þarf Tindastóll að vinna sinn leik og mun þá markatala ráða en Keflavík hefur sex mörkum betra markahlutfall en Tindastóll.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var staddur á leik Keflavíkur og Vals í dag og má sjá myndir úr leiknum neðst á síðunni.