Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Barist í Sláturhúsinu í kvöld
Þriðjudagur 27. mars 2007 kl. 11:55

Barist í Sláturhúsinu í kvöld

Keflavík og Grindavík mætast í sínum þriðja leik í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í kvöld en leikurinn fer fram í Sláturhúsinu í Keflavík og hefst kl. 19:15. Staðan er 1-1 í einvíginu og hafa liðin unnið sinn hvorn heimaleikinn. Keflavík hefur heimavallarréttinn og ef til oddaleiks kemur mun hann fara fram í Sláturhúsinu.

 

Fyrstu viðureign liðanna lauk með 87-84 sigri Keflavíkur en Grindavíkurkonur jöfnuðu metin í Röstinni með 100-94 sigri í framlengdum leik. Óhætt er að segja að Tamara Bowie hafi verið að fara mikinn í liði Grindavíkur en alls hefur hún gert 81 stig í leikjunum tveimur. Í fyrsta leiknum gerði hún 39 stig en í öðrum leiknum bætti hún um betur og setti niður 42 stig. Þá hefur Bowie einnig tekið alls 25 fráköst í leikjunum, 10 í þeim fyrsta og 15 í öðrum leiknum.

 

Hjá Keflavík hefur stigaskorið verið að dreifast meira en hjá Grindavík en mikið hefur samt mætt á TaKeshu Watson sem gerði 33 stig og tók 14 fráköst í fyrsta leik en í Grindavík gerði hún 24 stig og tók 15 fráköst.

 

Fyrstu tveir leikir liðanna hafa verið frábær skemmtun þar sem úrslitin hafa ekki ráðist fyrr en í blálok leiksins. Svæðisvörn Keflavíkur hefur verið Grindavík þungbær en á móti kemur að Keflavík hefur ekki roð í Tamöru Bowie og leggja því ofurkapp á að loka á alla aðra leikmenn Grindavíkur. Þegar það bregst er Grindavík í góðum málum en ef Keflavík getur lokað á sendingaleiðir að Bowie þá eru Grindvíkingar komnir upp við vegg.

 

Körfuknattleiksaðdáendur ættu því ekki að láta leik kvöldsins fram hjá sér fara og fjölmenna í Sláturhúsið í kvöld og sjá hvað þessi glæsilega Suðurnesjarimma hefur upp á að bjóða.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024