Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Baráttusigur Keflvíkinga gegn Stjörnunni
Damon Johnson skoraði 20 stig í heimkomunni.
Mánudagur 20. október 2014 kl. 21:52

Baráttusigur Keflvíkinga gegn Stjörnunni

Keflvíkingar unnu níu stiga sigur á Stjörnumönnum, á heimavelli sínum í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í leiknum 83-74 en leikurinn var jafn og spennandi allt fram að síðasta leikhluta. Þá tóku Keflvíkingar öll völd og skoruðu 27 stig í öllum regnbogans litum. William Graves, nýi erlendi leikmaður Keflvíkinga, leit virkilega vel út í leiknum og verður forvitnilegt að sjá hann þegar kappinn er kominn í fullt leikform. Hann skoraði 23 stig í leiknum og skilaði vel í öðrum flokkum tölfræðinnar.

Aldursforsetarnir Gunnar Einars og Damon voru báðir í byrjunarliðinu og stóðu vel fyrir sínu. Gunnar stóð vaktina vel í vörninni á meðan Damon sallaði niður stökkstotum og skoraði 20 stig. „Þeir komu flottir inn í dag og gefa okkur ákveðna vídd í okkar leik. Ég setti þá báða í byrjunarliðið til þess að hækka aðeins meðalaldurinn á vellinum,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Keflvíkinga í leikslok. „Þeir gefa okkur ákveðna sigurhefð sem er kannski búið að vanta í einhvern tíma hérna í Keflavík,“ bætti Helgi við.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Valur Orri var flottur í leiknum og Þröstur Leó átti frábæra innkomu af bekknum, en með honum kom barátta og leikgleði. Keflvíkingar hafa nú unnið báða leiki sína í deildini til þessa og mæta Þór í næsta leik.

„Við getum ekki treyst á sóknina okkar alveg strax þar sem hún er mjög stirð. Hún lítur stundum vel út en er á köflum alveg hrikaleg,“ sagði Helgi Jónas þjálfari Keflvíkinga í leikslok. Helgi segir að liðið hafi ekki tekið margar æfingar saman sem heild enda hafi menn verið að koma inn á síðustu metrunum, bæði þá úr meiðslum og erlendis frá. „Við lentum í því að nokkrir erlendir leikmenn voru búnir að segjast ætla að koma til okkar en hættu við á síðustu stundu. Þannig að það ferli tók langan tíma.“

Gangur leiks: Keflavík-Stjarnan 83-74 (19-21, 22-18, 15-19, 27-16)

Tölfræðin

Keflavík: William Thomas Graves VI 23/7 fráköst/6 stoðsendingar, Damon Johnson 20/4 fráköst, Valur Orri Valsson 16/8 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 14/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 5/7 fráköst, Reggie Dupree 3, Davíð Páll Hermannsson 2, Andrés Kristleifsson 0, Gunnar Einarsson 0, Eysteinn Bjarni Ævarsson 0, Aron Freyr Eyjólfsson 0, Arnar Freyr Jónsson 0.

Myndir og texti [email protected]