Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Baráttusigur Grindvíkinga í bikarnum
Sigurður Þorsteinsson var drjúgur gegn sínum gömlu félögum í Keflavík. Hann skoraði 20 stig og var mjög sterkur í vörninni og gerði Michael Craion, besta manni heimamanna erfitt fyrir. VF-myndir/pket.
Mánudagur 2. desember 2013 kl. 21:01

Baráttusigur Grindvíkinga í bikarnum

Íslandsmeistararnir með góðan sigur á grönnum sínum

Grindvíkingar eru komnir áfram í átta liða úrslita bikarkeppni karla eftir 68-72 baráttusigur gegn Keflvíkingum í TM-Höllinni. Leikurinn var ekki frábær sóknarlega séð en fremur einkenndist hann af baráttu og flottum varnarleik. Grindvíkingar með Sigurð Þorsteinsson i broddi fylkingar unnu góðan sigur en leikurinn var jafn og spennandi allt til loka.

Leikurinn byrjaði þannig að Grindvíkingar virtust hreinlega ætla að stinga heimamenn af. Eftir smá erfiðleika í sóknarleiknum vöknuðu Keflvíkingar þó af vænum blundi og jöfnuðu leikinn undir lok fyrsta leikhluta. Grindvíkingar voru þó ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru yfirleitt skrefinu á undan. Keflvíkingar léku svæðisvörn en Grindvíkingar náðu að halda ró sinni og láta boltann ganga. Bæði lið voru að leika góða vörn og var töluvert um stolna bolta og glæsileg varin skot, sérstaklega hjá Grindvíkingnum Ólafi Ólafssyni sem sendi tvo skot Keflvíkinga nánast upp í stúku. Auk þess voru leikmenn oft fljótfærir og gáfu kæruleysislegar sendingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Staðan var 31-36 þegar flautað var til hálfleiks þar sem Grindvíkingar leiddu. Keflvíkingar mættu klárir til leiks og skoruðu níu stig án þess að Grindvíkingar næðu að svara. Þegar einn leikhluti var eftir var jafnt, 47-47 og stefndi allt í hörku bikardrama af bestu gerð. Það var enginn svikinn undir lok leiksins en þar var spenna alveg fram á síðustu sekúndur. Leikurinn kláraðist á vítalínunni en Keflvíkingurinn Michael Craion, sem þó var frábær í leiknum, nýtti skotin ekki vel undir lok leiks. Grindvíkingar innsigluðu sigurinn á vítalínunni en þar var að verki Þorleifur Ólafsson. Lokatölur 68-72.

Keflavík-Grindavík 68-72 (16-15, 15-21, 16-11, 21-25)

Keflavík: Michael Craion 22/14 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Darrel Keith Lewis 12/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 8/7 fráköst, Valur Orri Valsson 7, Arnar Freyr Jónsson 6, Ragnar Gerald Albertsson 5, Guðmundur Jónsson 3, Hafliði Már Brynjarsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Ólafur Geir Jónsson 0, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.

Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 20/11 fráköst, Earnest Lewis Clinch Jr. 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 12/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 10/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 8/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 3, Jón Axel Guðmundsson 2/10 fráköst, Nökkvi Harðarson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0.

Grindvíkingar fagna góðum sigri í TM-höllinni í Keflavík.

-