Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Baráttusigur á Blikum
Oft var mikil pressa á mark heimamanna en þeir vörðust vel. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 26. júlí 2021 kl. 11:47

Baráttusigur á Blikum

Keflavík lagði Breiðablik á gær í miklum baráttuleik á HS orkuvellinum. Þótt Blikar hafi verið meira við völd í leiknum sá sterkur varnarleikur Keflvíkinga við þeim og tvö góð mörk heimamanna gerðu útslagið.

Blikar sóttu meira í fyrri hálfleik en Sindri Kristinn Ólafsson var öryggið uppmálað í marki Keflavíkur og varði nokkrum sinnum vel en Breiðablik fékk þónokkur góð færi til að komast í forystuna. Það var því gegn gangi leiksins þegar Keflavík komst yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir að Blikar tóku stutta markspyrnu og Joey Gibbs óð inn í teiginn, setti mikla pressu á varnarmann gestanna og náði að komast fyrir boltann sem hrökk af Gibbs og í netið (43'). 1:0 fyrir Keflavík og mikil kátína á pöllunum.

Seinni hálfleikur byrjaði vel hjá Keflavík sem fékk aukaspyrnu á vallarhelmingi gestanna. Ástbjörn Þórðarson sendi góðan bolta inn í teig Blika og þar mætti Frans Elvarsson og stangaði hann í netið (47'). Heimamenn komnir með tveggja marka forystu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Frans með góðan skalla sem kom heimamönnum í tveggja marka forystu.

Áfram héldu Blikar að sækja en þeim reyndist oft erfitt að komast fram völlinn á móti sterkum vindinum og baráttuglöðum Keflvíkingum sem settu góða pressu á gestina og gáfu þeim lítinn tíma til að athafna sig. Vörn Keflvíkinga þétti sig eftir því sem leið á leikinn en gætti þess að leggjast ekki of aftarlega. Magnús Þór Magnússon, fyrirliði heimaliðsins, var öflugur í vörn og sókn ásamt þeim Frans, Ástbirni og Nacho Heras sem áttu allir mjög góðan leik.

Blikar fengu gullið tækifæri til að komast inn í leikinn nokkrum mínútum síðar þegar Magnús braut á Thomas Mikkelsen, sóknarmanni Blika, og víti var umsvifalaust dæmt. Mikkelsen tók sjálfur vítið, sendi Sindra í vitlaust horn en skaut í stöngina. Hann náði frákastinu sjálfur og setti boltann fram hjá Sindra í markið en það var réttilega dæmt af þar sem einhver annar leikmaður hefði þurft að koma við boltann í millitíðinni.

Einhverjir áhorfendur létu í sér heyra og þrættu fyrir vítaspyrnudóminn ... en brotið var frekar augljóst.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu að brjóta vörn heimamanna á bak aftur en hún varðist af krafti og gaf fá færi á sér. Má segja að hættulegasta færi Blika hafi komið eftir fyrirgjöf sem Nacho Heras komst inn í, skaut í stöngina og var nálægt því að skora sjálfsmark.

Með mikilli seiglu og baráttugleði höfðu Keflvíkingar tveggja marka sigur og sitja í áttunda sæti Pepsi Max-deildarinnar með sextán stig, einu stigi á eftir Leikni sem hefur leikið einum fleiri leiki.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, myndaði leikinn og má sjá afraksturinn í myndasafni neðst í fréttinni.

Keflavík - Breiðablik (2:0) | Pepsi Max-deild karla 25. júlí 2021