Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Baráttuglaðir Keflvíkingar unnu stórsigur
Föstudagur 12. október 2007 kl. 21:44

Baráttuglaðir Keflvíkingar unnu stórsigur

Um stórsigur Keflavíkur var að ræða þegar grannarimma þeirra og Grindavíkur fór fram í Sláturhúsinu í Reykjanesbæ í kvöld. Lokatölur leiksins voru 95-70 Keflavík í vil þar sem Bandaríkjamaðurinn B.A. Walker fór á kostum og setti niður 31 stig fyrir Keflvíkinga. Tommy Johnson var einnig drjúgur fyrir heimamenn og setti niður 21 stig en Páll Axel Vilbergsson var atkvæðamestur í litlausu liði Grindavíkur með 21 stig. Þrátt fyrir góðan sigur Keflavíkur er óhætt að segja að þessi grannarimma hafi valdið nokkrum vonbrigðum þar sem flestir áttu von á meira spennandi leik.

 

Í fyrsta leikhluta skildu leiðir liðanna þegar staðan var 7-7. Þá tóku heimamenn á rás og breyttu stöðunni í 22-9. Grindvíkingar voru þó ekki af baki dottnir og skiptu yfir í svæðisvörn sem hægði lítið eitt á Keflavík. Gulir náðu síðan að minnka muninn í 25-20 í lok leikhlutans með þriggja stiga körfu frá Páli Axeli fyrirliða.

 

Páll Axel var svo aftur að verki snemma í öðrum leikhluta þegar hann jafnaði metin í 27-27 með þriggja stiga körfu en þá hrukku heimamenn í gang og lögðu grunninn að góðum sigri sínum. Leikmenn af varamannabekk Keflavíkur komu grimmir inn í leikinn í kvöld og hélt Keflavíkurliðið ávallt uppteknum hætti á meðan Grindvíkingar voru fremur brokkgengir.

 

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 58-41 Keflavík í vil og Grindavíkurvörnin algerlega í molum. Þeir Igor Beljanski og Adam Darboe voru algerlega heillum horfnir í leiknum og munaði þar um minna. Friðrik Ragnarsson þjálfari hjá gulum var lítt kátur en sama hvað þeir reyndu þá voru Keflvíkingar einfaldlega mun betri.

 

Walker var með 15 stig í hálfleik hjá Keflavík en Jonathan Griffin var með 11 stig hjá Grindavík. Igor Beljanski fékk dæmda á sig sóknarvillu og í kjölfarið tæknivíti fyrir mótmæli við dómara og var það hans fjórða villa. Hans miður góða frammistaða varð til þess að Friðrik notaðist ekki meira við Beljanski í leiknum.

 

Sigurður Þorsteinsson og Gunnar Einarsson komu sérlega sprækir af varamannabekk Keflavíkur sem og Arnar Freyr Jónsson sem gaf 5 stoðsendingar á 8 mínútum í leiknum.

 

Grindvíkingar náðu að klóra í bakkann og allt leit út fyrir að áhorfendur væru að fá spennandi leik upp í hendurnar þegar Björn Steinar setti niður tvo þrista í röð fyrir gula og minnkaði muninn í 76-67. Keflvíkingar létu þessa rispu ekki á sig fá heldur hertu róðurinn og unnu lokaleikhlutann 19-9 og höfðu þ.a.l. 25 stiga sigur í leiknum, 95-70.

 

Engum blöðum er um það að fletta að Grindvíkingar eru feikilega sterkir á blaði en á vellinum sást það bersýnilega í kvöld að þeir eiga töluvert langt í land með að stilla saman strengi sína.

 

Keflvíkingar börðust vel og voru ófeimnir við að fá dæmdar á sig villur. Baráttan var í algelymingi og þá voru skot þeirra utan af velli að rata rétta leið. Magnús Gunnarsson sagði eftir leikinn að Keflvíkingar hefðu allt önnur markmið en 5. sætið í deildinni eins og þeim var spáð.

 

VF-Mynd/ [email protected] - Tommy Johnson leikmaður Keflavíkur í baráttunni við Grindvíkinginn Jonathan Griffin.

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024