Baráttan um Pepsi-deildina í grannaslag í Grindavík
Markamaskínur og jafntefliskóngar mætast í kvöld - ítarleg umfjöllun
Sviðið er klárt fyrir stærsta slag sumarsins í fótboltanum á Suðurnesjum. Markaóðir Grindvíkingar taka þá á móti jafntefliskóngunum og grönnum sínum frá Keflavík á Grindavíkurvelli í 1. deild karla. Liðin eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar og er því mikið undir. Í fyrri leik liðanna höfðu Keflvíkingar 2-0 sigur á Nettóvellinum en markvörður Grindvíkinga var afar gjafmildur þann daginn.
Grindvíkingar sem eru í öðru sæti, hafa skorað langflest mörkin í Inkasso deildinni í sumar, eða 36 talsins, sem gera 2,6 mörk í leik. Keflvíkingar hafa skorað næstflest mörk deildarinnar eða 24 stykki. Það má því búast við mörkum í leiknum í kvöld ef liðin mæta rétt stillt til leiks. Grindvíkingar hafa ekki tapað ennþá á heimavelli í deildinni, þar sem þeir skora að jafnaði þrjú mörk í leik. Keflvíkingar hafa hins vegar aðeins tapað einum leik á útivelli það sem af er tímabili og eru ásamt Grindvíkingum eina taplausa liðið á heimavelli.
Hver er galdurinn á bakvið þennan frábæra sóknarleik Grindvíkinga?
„Við höfum alltaf verið með góða sókn en núna er bara allt inni. Við elskum að spila fyrir hvorn annan, ætli munurinn liggi ekki þar,“ segir Alexander Veigar Þórarinsson sem hefur verið burðarásinn í leik Grindvíkinga í sumar. Tvítugur ákvað Alexander Veigar að yfirgefa uppeldistöðvarnar í Grindavík og reyna fyrir sér hjá Fram. Hann hefur komið víða við síðustu tíu árin, þar sem hann hefur m.a. leikið með BÍ/Bolungarvík og Þrótti en hann dvaldi í Danmörku síðasta ár. Nú er Alexander kominn aftur heim og hefur aldrei verið betri. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með átta mörk. „Þetta ætlar að vera markasumarið mikla. Það hafa ekki verið mörg sumur þar sem maður nær að troða svona mörgum mörkum inn,“ segir
Grindvíkingurinn en mörg lið m.a. í efstu deild, voru áhugasöm um að fá piltinn í sínar raðir.
„Þegar ég var á leið heim þá var það bara Grindavíkin sem kom til greina. Ég hafði bara svo bilaða trú á því að við Grindvíkingar myndum fara upp núna þannig að ég gat alveg þolað eitt ár í 1. deildinni í viðbót. Mér líður ljómandi vel í Grindavík.“ Alexander er í frábæru formi og er oft mjög erfiður viðureignar á vellinum. „Ég held að ég hafi nú aldrei verið betri,“ segir hann léttur í bragði.
Hann heldur að línur skýrist í næstu þremur umferðum. „Ef okkur hefði verið boðin þessi staða fyrir tímabilið þá held ég að við hefðum tekið hana. Við sjáum hins vegar á eftir nokkrum stigum og erum hundfúlir með margt.“
Hvað þarf að gera til þess að leggja Keflvíkinga? „Þeir eru með reynsluna og með nokkra þokkalega snögga fram á við. Við skorum alltaf mörk, þannig að af vörnin heldur þá förum við langt.“ Grindvíkingar hafa skorað gegn öllum liðum deildarinnar, nema Keflavík. „Við ætlum að troða einhverjum mörkum á grannana í kvöld. Við viljum bara sjá 600-700 manns á leiknum og brjálaða stemningu. Við sjáum svo um að bjóða upp á alvöru fótbolta.
Bakverðinum líður best frammi - Gaman að spila í Grindavík
Fyrrum bakvörðurinn Magnús Þórir Matthíasson er meðal markahæstu leikmanna deildarinnar. Upp alla yngri flokka lék hann sem framherji og er að finna sig vel á þessum fornu slóðum. Magnús fór í vinstri bakvörð í afleysingum fyrir þremur árum. Þorvaldur Örlygsson þjálfari hafði séð til hans frammi áður fyrr og vildi gefa honum tækifæri þar. Magnús hefur launað traustið með fimm mörkum. „Mér líður best upp á topp. Þetta hefur gengið ágætlega en ég á nokkur mörk inni,“ segir Magnús og bætir við, „Ég bara spila bara þar sem þjálfarinn segir mér að spila.“ Magnús er skiljanlega spenntur fyrir því að heimsækja grannana í kvöld en hann skoraði á móti þeim í síðasta leik.
„Að spila á móti Grindavík í Grindavík er alltaf gaman. Þetta er fallegt vallarstæði og góður völlur. Ef við náum okkar leik, eins og í fyrri leiknum gegn þeim, þar sem við spiluðum góða vörn og náðum að læða inn tveimur mörkum, þá ættum við að ná úrslitum. Það er klárt að þetta verður hörkuleikur.“ Með sigri jafna Keflvíkingar granna sína að stigum en Grindvíkingar eru í 2. sæti deildarinnar og grannar þeirra í því fjórða. Leikurinn hefst klukkan 19:15 á Grindavíkurvelli.