Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Baráttan um annað sætið harðnar
Fimmtudagur 22. febrúar 2007 kl. 18:18

Baráttan um annað sætið harðnar

Keppnin um 2. sætið í deildarkeppni kvenna í körfuknattleik er nú komin á fullt eftir að Grindavík hafði betur í grannaslag í gær, 86-93.
Keflavíkurstúlkur eru nú einungis 2 stigum á undan Grindavík og verður fróðlegt að sjá hvernig fer á endanum og hvort liðið fær heimavallarrétt í undanúrslitunum.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn í gær skelfilega þar sem Grindvíkingar geystust framúr og voru komnar með 20 stiga forskot í hálfleik, 32-52.
Mistækur sóknarleikur og afar slakur varnarleikur gaf Grindvíkingum, sem spiluðu hraðan og skemmtilegan bolta, ótal færi sem þær nýttu vel.

Í seinni hálfleik var sem loks kviknaði neisti í liði heimamanna þar sem TaKesha Watson fór á kostum og leiddi stórsókn. Munurinn minnkaði smátt og smátt og í 4. leikhluta náðu þær að jafna. Grindvíkingar voru hins vegar sterkari á endasprettinum og tryggðu sér góðan sigur.

Jón Eðvaldsson, þjálfari Keflvíkinga, sagði þessa stöðu hafa komið margoft upp í vetur. „Gegn sterkari liðunum virðumst við aldrei byrja leikinn fyrr en í seinni hálfleik og það er bara ekki nógu gott. Við erum með frábært lið, en þegar við mætum ekki tilbúnar í leiki getum við líka verið lélegt lið. Ég tek það ekki af Grindavík að þær spiluðu vel og höfðu það bara eins og þær vildu í fyrri hálfleik. Mér fannst mínar stelpur annars sína af sér mikinn karakter með því að vinna upp muninn en okkur vantaði bara herslumuninn.“

 

Tölfræði leiksins og staðan í deildinni hér

 

Video og Ljósmyndasafn hægra megin á síðu

 

Vf-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024