Baldvin Hróar nýr formaður Voga-Þróttar
Aðalfundur UMFÞ í Vogum fór fram á dögunum og samþykktu félagsmenn að deildaskipta félaginu. Gunar Helgason bauð sig ekki fram eftir tveggja ára setu sem formaður. Hann verður þrátt fyrir það áfram í stjórn félagsins. Baldvin Hróar Jónsson var sjálfkjörinn formaður. Baldvin Hróar er 36 ára og markaðsstjóri Nesbúeggja. Hann er í sambúð með Viktoríu Ólafsdóttir og saman eiga þau tvö börn.
Þrátt fyrir miklar aðhaldsaðgerðir frá árinu áður þá er um að ræða einn glæsilegasta ársreikning í sögu UMFÞ, segir í tilkynningu frá Þrótturum. Meirihluti hagnaðar, eða 3,9 m.kr. er tilkomin að mestu vegna fjölgun styrktaraðila, aðhaldsaðgerðir, fjölgun iðkenda, EM framlag frá KSÍ og einnig hefur gengið betur að innheimta æfingagjöld eftir að stjórn gerði breytingar á innheimtu og skráningu.
Það er álit stjórnar að mikilvægt sé að forgangsröðun verkefna verði á sömu braut og lagt var upp með fyrir ári síðan. Halda áfram með að efla starfið og stuðla að aukinni menntun þjálfara og sjá til þess að æfingar sem félagið býður uppá sé stjórnað af fagmennsku og að reksturinn verði áfram réttu megin við núllið.
Lögð var fram tillaga um að deildaskipta félaginu og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða félagsmanna.
Frá aðalfundi Þróttar í Vogum.