Baldur Sigurðsson: Klár ef kallið kemur
Miðvallarleikmaðurinn Baldur Sigurðsson er kominn aftur til Keflavíkur eftir að hafa verið til reynslu hjá norska úrvalsdeildarliðinu Lyn. Hjá Lyn hitti Baldur fyrir Stefán Gíslason, landsliðsmann, sem gerði garðinn frægan með Keflavík og Indriða Sigurðsson annan landsliðmann á mála hjá Lyn. Baldur sagði í samtali við Víkurfréttir að Stefán hefði reynst honum vel ytra en annars hefði Baldur gert fátt annað en æfa og halda til uppi á hótelherbergi þar sem hann las í bókum fyrir próf.
„Ef tilboð berst frá Lyn þá mun ég skoða það alvarlega en ég mun engu að síður framlengja samning minn við Keflavík í þessari viku. Ég og Keflavík höfum þegar náð saman við samningaborðið svo það er ekki eftir neinu að bíða nema skjalfesta þetta,“ sagði Baldur en reikna má með því að Baldur skrifi undir nýjan samning við Keflavík í vikulok.
Henning Berg fyrrum leikmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni er þjálfari Lyn og hann kom Baldri vel fyrir sjónir. „Hann var með góðar æfingar og er viðkunnalegur maður. Henning er gríðarlegur keppnismaður og tekur oft þátt í æfingunum sjálfur,“ sagði Baldur en vildi ekki kannast við að hjá Lyn hefðu hlutirnir virkað stærri en hér heima á Íslandi.
„Það er hátt tempó í norska boltanum og þetta er vitaskuld atvinnumannadeild. Ég held ég hafi bara verið í nokkuð góðu formi í samanburði við leikmenn Lyn en þeir voru nýkomnir úr þriggja vikna fríi,“ sagði Baldur.
Aðspurður kvaðst Baldur reiðubúinn í atvinnumennskuna en hann er 21 árs gamall. „Maður myndi fljótt sjá þegar út væri komið hvort maður væri klár eða ekki,“ sagði Baldur sem er djúpt sokkinn í námið um þessar mundir en hann er á öðru ári í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.
Baldur viðurkenndi að það væri freistandi að reyna við þann stóra með Keflavík, Íslandsmeistaratitilinn, og fór ekki leynt með að það væri skýr stefna í leikmannahópi Keflavíkur að gera góða atlögu að titilinum á næstu leiktíð. „Við þurfum bara að hefja næstu leiktíð af miklum krafti, ekki á miðju tímabili eins og við gerðum síðasta sumar,“ sagði Baldur að lokum.
Eflaust eru einhverjir þarna úti sem vonast til þess að Baldur verði að minnsta kosti eina leiktíð til viðbótar í röðum Keflavíkur enda sterkur leikmaður þarna á ferð. Þrátt fyrir það er erfitt að slá hendinni á móti útlöndum þegar þau kalla leikmenn í atvinnumennsku.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson og Þorgils Jónsson