Bættu fyrir einbeitingarleysi fyrri hálfleiks
Njarðvíkingar tóku á móti Ægismönnum í gær í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Rok og rigning setti svip sinn á leikinn og heimamenn léku gegn vindi í fyrri hálfleik. Ægir nýtti vindinn vel og komst í tvígang yfir í fyrri hálfleik og til að bæta gráu ofan á svart misstu Njarðvíkingar fyririða sinn af velli þegar hann braut á sóknarmanni gestanna í blálok háfleiksins (45').
Heimamenn fengu horn snemma leiks og skapaðist hætta upp við mark gestanna þegar Rafael Alexandre Romao Victor var nærri því að komast í færi. Gestirnir sóttu hins vegar hratt upp eftir sóknina og náðu að skora fyrsta mark leiksins (3').
Rafael Victor jafnaði leikinn eftir hálftíma leik þegar hann fékk góða sendingu og spilaði sig inn í teig Ægismanna þar sem hann skoraði örugglega framhjá markverði þeirra (30'). Í kjölfar marksins sóttu Njarðvíkingar í sig veðrið og settu talsverða pressu á Ægi.
Í lok hálfleiksins urðu Njarðvíkingar hins vegar fyrir tvöföldu áfalli. Það fyrra þegar hættuleg fyrirgjöf inn á markteig þeirra hafnaði í netinu en sóknarmaður gestanna var hársbreidd frá því að ná til boltans og það fipaði Robert Blakala, markvörð Njarðvíkinga (43'). Örskömmu síðar fær sóknarmaður Ægis sendingu inn fyrir vörnina og var á auðum sjó, Marc McAusland braut hins vegar á honum skammt utan teigs og var réttilega vísað af velli. Fullkomlega skiljanlegt brot hjá fyrirliðanum en engu að síður áfall fyrir Njarðvík.
Arnar Hallsson, þjálfari Njarðvíkinga, blés sínum mönnum augljóslega byr í brjóst í hálfleik og einum færri voru heimamenn sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Þeir jöfnuðu leikinn á 56. mínútu þegar Oumar Diouck komst einn á móti markmanni og afgreiddi knöttinn snyrtilega í markið.
Þótt Njarðvíkingar væru einungis tíu var varnarleikur þeirra mun betri í seinni hálfleik og gestirnir náðu varla að skapa sér færi. Það gerðu hins vegar heimamenn og hefðu hæglega getar tekið öll stigin en það gekk ekki eftir þrátt fyrir mikla pressu að marki Ægis í lok leiks.
Arnar Hallsson var ánægður með karakter liðsins sem steig upp í seinni hálfleik og gaf varla færi á sér. „Í síðari hálfleik gefur við ekki færi á okkur þrátt fyrir að vera manni færri. Í fyrri hálfleik erum við að gefa á okkur færi en þá erum við í jafnri stöðu – það er alveg galið,“ sagði Arnar í viðtali við Víkurfréttir eftir leik sem má sjá í spilaranum hér að neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum og má sjá myndasafn neðst á síðunni.