Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bætti sitt eigið Íslandsmet
Sunnudagur 12. ágúst 2007 kl. 14:50

Bætti sitt eigið Íslandsmet

Ökuþórinn Björn Sigurbjörnsson bætti á dögunum sitt eigið Íslandsmet í kvartmílu á mótorhjóli. Björn sem keppir í 1000cc flokki setti Íslandsmet á síðasta ári þegar hann ók kvartmíluna á 9,42 sekúndum en á dögunum gerði hann gott betur og kom í mark á 9,36 sek. Björn sagði samtali við Víkurfréttir að þetta þætti ekki mikill tími svona dags daglega en í kvartmílunni væri þetta nánast heil eilífð.


„Þetta hljómar ekki eins og mikill munur á metinu en þetta er mikill tími í kvartmílunni,“ sagði Björn í samtali við Víkurfréttir. Björn er einn þriggja Suðurnesjamanna sem keppir í kvartmílunni á mótorhjóli en aðrir eru þeir Gunnar Grétarsson og Jói Gaukur eða Gaukurinn eins og Björn kallaði félaga sinn. „Við erum þrír hérna í þessu og hvetjum sem flesta til þess að koma á föstudögum út í Kapelluhraun og prófa,“ sagði Björn en hvað er það sem einkennir góðan ökumann í kvartmílukeppninni? „Maður þarf að vera léttur á sér og æfa vel og þá þarf maður einnig að hafa gott hjól í höndunum,“ sagði Björn sem tvívegis hefur dottið á hjólinu. „Gárungarnir segja að það séu til tvennskonar hjólarar, þeir sem hafa dottið og þeir sem eiga eftir að detta,“ sagði Björn og hló en þetta er víst lítið gaman mál hjá hjólamönnum. „Ég hef tvenns konar reynslu af því að detta, fyrra skiptið þá var ég sem betur fer á litlum hraða en það seinna var ég á miklum hraða og það var mjög skrýtin upplifun,“ sagði Björn sem þó slapp nokkuð vel. Umræðan í þjóðflélaginu hvað varðar bifhjólamenn hefur nokkuð hallað á hjólara en Björn segir að menn í hans geira hafi rætt mikið saman og að keppni eins og  kvartmílan stuðli að því að minnka hraðaksturinn á götum úti og færa hann inn í ramma þar sem kunnáttumiklir aðilar þekkja til. „Það verða alltaf til svartir sauðir í þessu en ég trúi því að menn séu að haga sér betur núna og að þessi mikla umræða hafi þar hjálpað til,“ sagði Björn.

Íþróttin er kostnaðarsöm því sitthvað kostar búnaðurinn og svo viðhaldið, t.d. dekk og eldsneyti en Björn býr vel og prísar sig sælan því Nesbyggð hefur stutt dyggilega við bakið á honum sem og Unnar Már hjá Aprillia Racing í Reykjavík. „Startið er aðeins dýrara en takkaskór og ef maður ætlar að vera með í þessu af einhverri alvöru þá kostar þetta sitt,“ sagði Björn. Að þessu sinni telur Björn að Íslandsmeistaratitillinn í 1000cc flokki sé ekki inni í myndinni þar sem brösuglega hafi gengið í sumar. „Það er alltaf fræðilegur séns en hæpið er það. Ég stefni samt að því að taka þátt í 1300cc flokki á næsta ári þar sem ég hef verið að ná jafn góðum ef ekki betri tímum en ökumennirnir í þeim flokki.“

 

Vf-mynd: jbo.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024