Bærinn styrkir keilufélagið
Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar, TÍR, hefur samþykkt að greiða húsaleigu á Keilusalnum fyrir karladeild Keilufélags Keflavíkur.Þetta var ákveðið eftir að aðalstjórn keilufélagsins óskaði eftir styrk til að greiða fyrir 16 æfingatíma í Keilusalnum á yfirstandandi keppnistímabili. Ráðið tók þó sérstaklega fram að það hefði ekki sérstakt fjármagn til að greiða húsaleigu íþróttafélaga, enda íþróttaaðstaða yfirleitt í eigu Reykjanesbæjar. TÍR samþykkti að verða við beiðninni að þessu sinni og mun óska eftir fjármagni við næstu fjárhagsáætlunargerð til að koma til móts við greiðslu æfingatímanna.