Auðveldur sigur Tindastóls í Sandgerði
Lærisveinar Kára Maríssonar gerðu auðvelda ferð til Sandgerðis í bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í dag. Tindastóll sigraði 2. deildar lið Reynis með 47 stigum, 71-118 í leik sem var lítið spennandi. Heimamenn stóðu sig þó með stakri prýði en stundum vinnur Golíat í baráttu sinni við Davíð.
Tindastóll hóf leikinn 11-0 og náðu heimamenn aldrei að vinna upp þann mun. Að 1. leikhluta loknum var staðan 18-38. Liðin héldu svo til leikhlés í stöðunni 37-62 og því ljóst í hvað stefndi.
Hið sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem gestirnir réðu lögum og lofum á vellinum en lokatölur leiksins voru eins og áður segir 71-118. Tindastóll er því kominn í 16 liða úrslit í bikarkeppni KKÍ og Lýsingar.
VF-myndir/ Jón Björn
