Auðveldur Keflavíkursigur í Toyotahöllinni
Keflavík og Grindavík mættust í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Keflavíkurstúlkur voru sterkari aðilinn allan tímann og virtust Grindvíkingar ekki geta náð sér á strik.
Atkvæðamest í liði Keflavíkur var Kristi Smith með 31 stig en hún hitti úr öllum fimm þriggjastiga skotum sínum í kvöld. Bryndís Guðmundsdóttir var ekki langt frá því að landa þrefaldri tvennu, en hún var með 20 stig, 9 stoðsendingar og 8 fráköst. Birna Valgarðsdóttir skoraði 15 stig, tók 10 fráköst og var með 4 stoðsendingar.
Hjá Grindavíkurkonum voru þær Joanna Skiba og Íris Sverrisdóttir með 14 stig hvor en Joanna var einnig með 7 stoðsendingar og Íris var með 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Helga Hallgrímsdóttir skoraði 13 stig og reif niður 14 fráköst, og þarf af 9 sóknarfráköst.
Kanalausar Njarðvíkurstúlkur fóru með sigur af hólmi gegn Val í Vodafone höllinni í kvöld en lokatölur leiksins voru 52-72. Ólöf Helga Pálsdóttir átti frábæran leik og var stigaæst með 18 stig, 16 fráköst og 7 stoðsendingar. Heiða Valdimarsdóttir var með 17 stig og 6 fráköst og Harpa Hallgrímsdóttir var með 10 fráköst og 8 stig.
Fleiri myndir eru að finna í ljósmyndasafni VF.
VF-myndir/ Hildur Björk Pálsdóttir