Ástrós safnar Íslandsmeistaratitlum
„Það var gaman að vinna og ég er alltaf að reyna að verða betri,“ sagði Ástrós Brynjarsdóttir sem varð Íslandsmeistari í Taikwondo í kvennaflokki en Íslandsmótið fór fram í TM-höllinni í Keflavík um síðustu helgi. Lið Keflavíkur hampaði einnig liðatitlinum og sigraði með yfirburðum.
Ástrós var valinn keppandi mótsins í kvennaflokki en hún hefur verið valin Íþróttamaður Reykjaensbæjar síðustu tvö ár.
„Ég æfi 2-3 klukkustundir á dag með aukaæfingum og er líklega að æfa mun meira en margir aðrir. Ég ætla mér að bæta í enn frekar á næstunni og sækja mót í útlöndum,“ segir Ástrós sem hefur verið Íslandsmeistari í yngri flokkum undanfarin fjögur ár.“
Keppt er í tveimur greinum í taekwondo, bardaga og tækni.
Ástrós segist stöðugt vera að vinna í því að verða betri en Helgi Rafn Guðmundsson er þjálfari hennar og deildarinnar. „Við erum stöðugt að bæta ýmsa þætti. Nú erum við að fínpússa tæknina, skoðum t.d. video til þess. Helgi sér t.d. eitthvað sem ég get gert betur og þá æfi ég það.“
Aðspurð um hvort líf hennar snúist um taikwondo þá játar Keflavíkurmærin því. „Taekwondo er númer eitt hjá mér. Það er bara þannig.“ Ástrós segir mikilvægt að stunda heilbrigt líferni til að ná meiri árangri, borða heilsusamlegan mat og sofa vel. Hún segir að það sé svakalega skemmtilegt að taka þátt í alþjóðlegum mótum í útlöndum. Næsta mót er Evrópumót í tækni í Serbíu og fleiri í kjölfarið.
Ástrós náði 10. sæti á heimsmeistaramóti í Mexíkó fyrir ekki löngu síðan en segist horfa nú á Evrópumeistaratitil sem nýtt markmið. Helgi Rafn segir að Ástrós eigi örugglega eftir að láta að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Þá eru Olympíuleikar annað markmið sem Ástrós horfir til árið 2016 eða 2020. „Hún er með metnaðinn, sjálfsagan og dugnaðinn til að ná langt,“ sagði Helgi.