Ástrós og Kristmundur sigursæl á RIG
Um síðastliðna helgi var haldið fjölgreinamótið Reykjavík International Games í sjöunda sinn. Þar var keppt í taekwondo á laugardag og sunnudag. Keflvíkingar mættu með gott lið eins og venjulega og uppskáru ríkulega. Meðal keppenda voru Ástrós Brynarsdóttir og Kristmundur Gíslason, en þau voru nýverið valin íþróttamenn Keflavíkur. Þau áttu mjög gott mót og voru valin íþróttamaður og kona leikanna í taekwondo.
Ástrós vann gullverðlaun í bardaga, einstaklingstækni, paratækni og hópatækni. Hún fékk því fjögur gull af fjórum mögulegum. Hún sýndi fram á einstaklega góða tækni bæði í tækni og bardaga. Hún sigraði báða sína bardaga á 12 stiga reglunni. Sú regla segir að ef 12 stiga munur fæst á milli keppenda í eða við 3. lotu bardagans þá skal sá sigra sem hefur 12 stiga forskotið.
Kristmundur sigraði stærsta flokk mótsins með ótrúlegum hætti en hann vann alla bardaga á áðurnefndri 12 stiga reglu. Það er ekki algengt að sjá slíkan mun í eins sterkum flokki og þessi flokkur var, en Kristmundur hefur verið á góðri siglingu síðustu misseri og meðal annars hefur hann nælt sér í gullverðlaun á þremur síðustu mótum.