Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 1. febrúar 2003 kl. 13:09

Ástæðan fyrir uppsögn Kevins Grandberg kom fram á aðalfundi körfuknattleiksdeildar Keflavíkur

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Keflavíkur var haldinn sl. föstudag þar sem m.a. var farið yfir rekstrarárið og Hrannar Hólm, formaður deildarinnar, fór yfir starfssemina og las upp skýrslu stjórnar. Í skýrslunni var ýmislegt forvitnilegt en þar er m.a. talað í örstuttu máli og gefnar skýringar á því hvers vegna stjórn deildarinnar ákvað að segja upp samningi við Kevin Grandberg. Örfá orð um viðskilnað körfuknattleiksdeildarinnar við Kevin Grandberg(úr skýrslunni)
Eins og áður segir var samningi deildarinnar við Kevin Grandberg sagt upp og Ed Saunders kom í staðinn. Í kjölfar þess varð töluvert fjaðrafok í körfuboltasamfélaginu á Íslandi og m.a. voru ritaðar greinar í Moggann og DV þar sem stjórn Keflavíkur var vænd um siðleysi og samviskuleysi af mönnum sem höfðu ekki áhuga á að afla sér upplýsinga um málið. Fyrst töldu reyndar margir að Keflavík hyggðist notast þrjá “útlendinga” og gagnrýndu það óspart, en þegar í ljós kom að svo var ekki, fóru menn, m.a. blaðamenn, að gagnrýna að Kevin hefði verið sagt upp skömmu eftir að tímabili félagaskipta lauk, þann 5. janúar. Stjórnin kaus að leggja ekki í blaðaskrif til að útskýra sín mál, þar sem slíkt gæfi færi á alls konar útúrsnúningum og málalengingum. Við vildum frekar stuðla að því að liðið fengi sem fyrst næði til að einbeita sér að leiknum á vellinum. Því voru málin útskýrð fyrir leikmönnum og aðalstjórn félagsins og þar við látið sitja.

Vegna þess sem rætt og ritað hefur verið teljum við þó rétt að nota þetta tækifæri til að upplýsa félagsmenn um að ákvörðunin um að segja upp samningi við Kevin var tekin þann 8. janúar og að hugmyndin fæddist eftir tapleik gegn Njarðvík, þann 7. janúar. Því var alls ekki um það að ræða að viljandi hefði verið beðið með að segja upp samningi fram yfir 5. janúar, atburðarásin fór hreinlega ekki í gang fyrr en að þeim degi liðnum. Stjórnin gerði sér grein fyrir afleiðingunum fyrir Kevin og bauðst til að aðstoða hann við að fá sér nýtt starf, þótt ljóst væri að það gæti ekki orðið við körfuboltaiðkun hér á landi.

Það verður að teljast undarlegt hve margir kusu að tjá sig um málið opinberlega án þess að reyna að afla upplýsinga hjá stjórninni um staðreyndir. Hinu má þó heldur ekki gleyma, að íslenskur körfuboltaheimur er að nánast öllu leyti sjálfboðamennska. En um leið og menn þiggja með einum eða öðrum hætti greiðslur fyrir íþrótt sína eru þeir komnir yfir í annan heim, ef svo má segja. Sá heimur er harðari, kröfurnar eru meiri og samningar eru uppsegjanlegir. Menn vita að hverju þeir ganga.

Stjórnin hafði heildarhagsmuni félagsins að leiðarljósi við aðgerð þessa og taldi nauðsynlegt að gera breytingu á liðinu til að styrkja það fyrir úrslitaátökin. Þótt enn sé kannski fullsnemmt að fullyrða nokkuð um endanleg áhrif þessarar breytingar, má þó auðveldlega greina að leikur liðsins hefur orðið betri í kjölfarið.

Skýrsluna er að finna í heild sinni á: www.keflavik.is/karfan
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024