Áslaugarbikarinn afhentur í Njarðvík
Unglingaráð UMFN hefur tekið þá ákvörðun að afhenda tvo bikara, fyrir bæði kyn, fyrir efnilegustu leikmenn félagsins. Undanfarin 24 ár hefur Elfarsbikarinn verið afhentur þeim leikmanni sem hefur þótt efnilegastur í félaginu, en Elfarsbikarinn er gefinn af fjölskyldu Elfars heitins Jónssonar ( f. 18. janúar 1957 d. 8. janúar 1988), en Elfar lék í yngri flokkum félagsins. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.
Í ljósi þeirrar ákvörðunar að veita bikar hjá báðum kynjum viðraði Einar Árni Jóhannsson yfirþjálfari Unglingaráðs KKD UMFN þá hugmynd upphaflega við Unglingaráð og síðar við fjölskyldu Áslaugar heitinnar Óladóttur (f. 6.ágúst 1980 d. 15.apríl 2000) að félagið fengi að afhenta þeim leikmanni kvennaboltans sem þætti efnilegust Áslaugarbikarinn svokallaða. Þessari hugmynd var mjög vel tekið af bæði Unglingaráði og fjölskyldu Áslaugar, en hún lék í yngri flokkum UMFN og var einnig öflug í starfi hjá Unglingaráði, mest við sjoppuna hjá Kristni Pálssyni sjoppustjóra í þá daga.
Það er því afar ánægjulegt fyrir UMFN að fá að halda minningu Áslaugar heitinnar á lofti með þessum hætti og mun fjölskylda hennar, sem eru afar öflugir stuðningsmenn UMFN, gefa farandbikar sem verður afhentur í fyrsta sinn í vor. Foreldrar Áslaugar heitinnar eru þau Elín Guðjónsdóttir og Óli Þór Valgeirsson. Systkini hennar eru Ásta Óladóttir Dorsett, Valgeir Ólason og Elín María Óladóttir.
Elfarsbikarinn verður veittur í tuttugusta og fimmta skipti næsta vor og verður þá eftirleiðis veittur leikmanni úr karlaboltanum hjá félaginu á sama tíma og Áslaugarbikarinnn verður afhentur þeim leikmanni úr kvennaboltanum sem þykir efnilegastur.