Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Áskell með einn stærsta lax sumarsins
Fimmtudagur 19. ágúst 2010 kl. 10:52

Áskell með einn stærsta lax sumarsins

„Ég græjaði mig upp fyrir stóran fisk. Ég og veiðifélagi minn ræddum það og ég setti stærri flugu, taum og þríkrækju á stöngina. Svo kom bara kvikyndið,“ sagði Áskell Agnarsson, stangveiðimaður og byggingaverktaki hjá Húsagerðinni í Keflavík. Hann veiddi í fyrradag stærsta lax sem veiddur hefur verið í einni vinsælustu veiðiá landsins, Norðurá. Þessi risahængur var mældur 101 sentimetri eða 20 pund og veiddist í einum fengsælasta veiðihyl Norðurár, Myrkhyl.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er nokkuð ljóst að þessi stóri fiskur hefur verið í ánni í allt sumar því hann var leginn eins og sagt er, rauðleitur og dökkur“, sagði Áskell. En hvernig gekk að eiga við hann?

„Hann þumbaðist í nokkurn tíma en þó styttri en ég átti von á. Kannski um 20 mínútur. Ég fann strax að þetta var stór fiskur enda gerði ég ráð fyrir því,“ sagði veiðimaðurinn og hló. Einungis er veitt á flugu í Norðuá og notaði Áskell þýska snældu en hún er í þýsku fánalitunum.

Stóra laxinum var sleppt aftur í ána og það eru því tækifæri fyrir þá sem mæta í ánna á næstunni að setja aftur í stórlax. Það er regla í þessari veiðiá og mörgum öðrum að setja alla stóra fiska, þ.e. yfir 70 sm. langa, aftur út í ána. Áskell og veiðifélagi hans voru ekki með neinar græjur hins vegar til að mynda tröllið, hvorki síma né myndavél. Þeir vildu enga truflun í þessari veiði og skildu símann eftir í bílnum.
Áskell sem oft er kallaður Ái fær hér eftir kannski viðurnefnið Norður-ái?

Ái og Norðuráin í baksýn, Myrkhylur er rétt neðan við veiðihúsið. Efst sýnir veiðimaðurinn stærð laxins sem bíður eftir næsta veiðimanni í ánni. Á neðstu myndinni má sjá Laxfoss sem er einn af mörgm glæsilegum veiðistöðum í Norðurá.

Það voru fleiri Suðurnejamenn við veiðar á sama tíma og Áskell. Hér er Gylfi Kristinsson með fínan lax sem er þó rúmlega 30 sm. styttri en stórlax Áskels. Fiskurinn hjá Gylfa er ekki lítill svo það er hægt að ímynda sér stærð tröllsins hjá Áskeli.