Ásgeir Orri lék sinn fyrsta landsleik
Ásgeir Orri Magnússon, markvörður úr Keflavík, lék sinn fyrsta landsleik fyrir U19 landslið karla í síðustu viku þegar Ísland mætti Írum í vináttulandsleik á Pinatar Arena á Spáni.
Ásgeir Orri átti ágætan leik þrátt fyrir 3:0 tap en mörkin skrifast ekki á hann. Fyrsta markið kom á 23. mínútu en þá lék leikmaður Írlands upp að endamörkum og sendi lágan bolta fyrir markið, íslensku varnarmönnunum mistókst að hreinsa frá og eftirleikur sóknarmanna Írlands auðveldur. Annað markið kom eftir hornspyrnu (66’) og það síðasta skoruðu Írar með glæsilegu langskoti út við stöng, algerlega óverjandi fyrir Ásgeir (72').
Ásgeir hefur verið fastur í æfingahópi meistaraflokks og verið að bæta sig mikið seinustu mánuði, þá var hann í síðasta mánuði til reynslu hjá ítalska liðinu Venezia. Leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.