Aron Smárason með tvö mörk í Eyjum
Njarðvíkingar féllu í gær úr 16-liða úrslitum í VISA-bikarkeppni karla í knattspyrnu þrátt fyrir hetjulega frammistöðu. Léku þeir grænklæddu gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Eyjum og töpuðu þar 3-2. Þó verða þessi úrslit að teljast ásættanleg fyrir Njarðvíkinga þar sem tvær deildir skilja að liðin.
Aron Smárason var á skotskónum fyrir Njarðvíkinga og gerði bæði þeirra mörk í leiknum en þeir Steingrímur Jóhannesson, Bjarni Rúnar Einarsson og Pétur Óskar Sigurðsson gerðu mörk Eyjamanna.
Eftir 11 mínútna leik var staðan 2-0 fyrir heimamenn og syrti í álinn fyrir Njarðvíkinga. Þannig héldu liðin þó til hálfleiks en á 61. mínútu komst ÍBV í 3-0. Aron Smárason minnkaði svo muninn í 3-1 á 75. mínútu leiksins og bætti um betur á 89. mínútu og staðan þá 3-2 en lengra komust Njarðvíkingar ekki og bikarsumar þeirra því á enda.
VF-mynd/ Jón Björn: Frá leik Njarðvíkinga og Selfoss fyrr í sumar.