Aron Elís í Keflavík
Sandgerðingurinn Aron Elís Árnason er genginn til liðs við Pepsi deildarlið Keflavíkur frá Reyni Sandgerði. Keflvíkingar hafa verið að glíma við meiðsli markvarða sinna og Englendingurinn David Preece yfirgaf einnig liðið á dögunum.
Hinn 19 ára Bergsteinn Magnússon stóð í markinu gegn Breiðablik í síðasta leik og stóð sig með ágætum. Aroni er ætlað að veita Bergsteini samkeppni en Sandgerðingurinn er sjálfur 21 árs gamall.
,,Aron Elís vildi færa sig frá Sandgerði og hann kemur inn í æfingahóp hjá okkur og setur smá þrýsting á Bergstein. Við þurfum síðan að sjá stöðuna á Ómari en það kemur í ljós mjög fljótlega," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur við Fótbolta.net í dag.
Næsti leikur Keflvíkinga er gegn FH um helgina en þar verður forvitnilegt að sjá hver stendur í markinu.