Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arnór: „Var gjörsamlega kjaftstopp“
Mánudagur 9. maí 2016 kl. 14:52

Arnór: „Var gjörsamlega kjaftstopp“

Framtíðin skýrist fyrir EM

Síminn hefur gjörsamlega logað hjá knattspyrnukappanum Arnóri Ingva Traustasyni síðan EM-hópur íslenska landsliðsins var tilkynntur nú rétt eftir hádegi. Arnór sem leikur með Norrköping í Svíþjóð fékk tíðindin sjálfur tæpum klukkutíma áður en hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi.

Hann var á Skype við Lúkas félaga sinn þegar símtalið frá starfsmanni KSÍ kom. „Ég þekki númerið á símanum og ég kom ekki upp orði, var gjörsamlega kjaftstopp, Þetta var alveg gjörsamlega ruglað og við Lúkas öskruðum af gleði eftir að samtalinu lauk,“ segir Arnór í samtali við blaðamann Víkurfrétta. Hann var augljóslega búinn að bíða spenntur eftir þessum degi en það er ekki ýkja langt síðan Arnór kom fyrst til greina í lokahópinn. Hann hefur t.a.m. ekki ennþá leikið A-landsleik á Laugardalsvelli.

Ekkert gefið þrátt fyrir mörk

„Ef ég lít aftur í tímann þá náði ég ekki að sýna nógu mikið þegar ég fékk séns í leikjunum í nóvember. Aftur í janúar fæ ég tækifæri og þá var ég ekkert alltof ánægður með sjálfan mig. Í þessum tveimur leikjum sem ég spila svo í mars þá taldi ég mig eiga möguleika eins og hver annar. Eftir að ég skoraði tvö mörk þá fer fólk að segja að ég sé klár í hópinn en það virkar bara ekki þannig. Það er svo miklu meira sem spilar inn í. Maður reyndi að loka á allt saman og bíða bara eftir þessum merka degi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnór segir að það hafi truflað hann örlítið að heyra þessa umræðu en hann reyndi að forðast hana algjörlega. „Það tók tíma að blokka þessa utanaðkomandi umræðu. Mér finnst það mjög óþægilegt og ég reyni að forða mér út úr þeim samræðum eins fljótt og auðið er.“

Öskraði þegar hann sá Ingvar inni

Það kom kannski mörgum á óvart að Njarðvíkingurinn Ingvar Jónsson var einnig valinn í hópinn en hann hefur ekki fengið mörg tækifæri milli stanganna þrátt fyrir að vera ítrekað í hópnum.

„Ég öskraði þegar ég sá að Ingvar var í hópnum! Það er alveg geggjað. Ég var nokkuð viss um að Gunnleifur fengi hans sæti,“ viðurkennir Arnór og er augljóslega í skýjunum fyrir hönd félaga síns.

Enn óvíst með framtíðina 

Arnór gat ekki tjáð sig um hvort hann myndi spila í Vínarborg á næsta tímabili en hann segir að framtíð sín muni skýrast núna fyrir Evrópumótið. Lið Rapid Vín er sagt tilbúið að greiða 2 milljónir evra fyrir kappann en það mun skýrast fljótlega. Arnór vill helst að framtíð sín sé skýr fyrir keppnina en hann segist vera búinn að hugsa sér næstu skref á sínum ferli.