Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arnór skráði nafn sitt í sænsku sögubækurnar
Arnór í sæluvímu eftir að hafa landað sænska titlinum. Mynd: Joakim Blomqvist
Laugardagur 7. nóvember 2015 kl. 09:51

Arnór skráði nafn sitt í sænsku sögubækurnar

Ítarlegt viðtal við knattspyrnumanninn öfluga

Knattspyrnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason varð sænskur meistari með Norrköping. Skoraði mark og lagði upp annað í lokaleiknum sem tryggði titilinn. Felldi tár í leikslok.

Eftir brokkgengt gengi með liðum sínum undanfarin ár er Arnór Ingvi Traustason á toppi fótboltans í Skandínavíu. Arnór stal senunni þegar Norrköping tryggði sér óvænt sænska titilinn um síðastliðna helgi, þar sem hann lagði upp og skoraði í 2-0 sigri gegn meisturum Malmö. Hann átti flestar stoðsendingar í deildinni og skoraði sjö mörk. Hann dreymir um sæti á EM með landsliðinu og stefnir á að spila í stærri deild.

Fyrsta spurning blaðamanns átti að vera á þá leið, hvort ertu Njarðvíkingur eða Keflvíkingur, því bæði félög vilja ólm eigna sér piltinn sem ólst upp hjá Njarðvík en sló í gegn hjá Keflavík? Hann virtist þegar hafa svarað spurningunni, en hann var með snyrtilega Njarðvíkurderhúfu þegar hann birtist á tölvuskjánum. „Ég veit það ekki. Ég tel mig ekki vera eitthvað eitt. Ég held t.d. mikið með Njarðvík í körfuboltanum. Ég veit það ekki, þetta er mjög erfið spurning. Ég var í Holtaskóla alla mína skólagöngu en ólst upp í Njarðvík. Ég er bara bæði og vil ekki velja á milli.“ Þannig að segja mætti að Arnór sér hinn dæmigerði Reykjanesbæingur, ef það er þá til. Hann spilaði fótbolta með Njarðvík til 15 ára aldurs en þá fór hann yfir lækinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félög í Evrópu fylgjast með

Norrköping er fornfrægt félag í Svíþjóð. Fyrir komu Arnórs hafði félagið beðið eftir sínum þrettánda meistaratitli í 26 ár. Liðið spilaði glimrandi sóknarleik þar sem Arnór lék aðalhlutverk. Af 60 mörkum liðsins þá kom Arnór að 17 þeirra með beinum hætti. Hann tók auk þess flestar auka- og hornspyrnur liðsins og skapaði með þeim fjölda marktækifæra og marka óbeint. Þjálfari Norrköping talar um Arnór í sænskum fjölmiðlum sem ein bestu kaup liðsins síðustu ár og að hann sé einn besti spyrnumaður deildarinnar. Sérfræðingar í sænska boltanum ausa hann lofi og í sænskum fjölmiðlum er byrjað að orða Arnór við stærri félög í Evrópu. „Ég vildi ekki fá að heyra neitt af þessum sögusögnum og einbeita mér að þessu tímabili. Ef það kemur eitthvað upp sem er virkilega spennandi þá fer maður. En ef ekkert áhugavert er í boði þá er virkilega spennandi tímabil framundan með Norrköping þar sem við spilum í meistaradeildinni og verjum titilinn,“ segir Arnór um vangaveltur um framtíð sína. Hann eins og aðrir ungir knattspyrnumenn, á sér drauma um að leika á stóra sviðinu. Þá horfir hann til Englands og Ítalíu. „Raunhæft skref héðan væri Holland eða Þýskaland jafnvel,“ segir Arnór en í einhverjum miðlum er byrjað að orða hann við ensku úrvalsdeildarliðin Aston Villa og Bournemouth. Hann hefur ekki heyrt af þeim áhuga og er rólegur yfir þessu öllu saman.

Arnór og félagar höfnuðu í 12. sæti deildarinnar í fyrra og voru aðeins fjórum stigum frá fallsæti. Því var ekki búist við miklu af liðinu fyrir þetta tímabil. „Ég var mikið meiddur í fyrra. Eftir tímabilið fór ég að hugsa hvort það væri virkilega hægt að byggja á gengi okkar í fyrra. Við erum með góða hryggjarsúlu í liðinu og svo eru ungir strákar í liðinu sem flestir tóku skref upp á við í sumar. Við ætluðum okkur að gera mun betur og markmiðið var efstu sex sætin.“

Verið í basli hingað til

Arnór hefur ekki átt mikilli velgengi að fagna með liðum sínum frá því hann kom upp í meistaraflokk ungur að aldri. Hann var í botnbaráttu með Keflvíkingum auk þess sem hann fór um skamma stund til Noregs þar sem hann var í láni hjá Sandnes Ulf. „Ég og pabbi vorum farnir að grínast með það að ég væri í basli alls staðar sem ég fer. Ég var hjá litlu félagi í Noregi og það gekk ekki vel. Svo kem ég heim og það gengur ekki vel með Keflavík. Eftir fyrsta tímabilið í Svíþjóð fór ég að hugsa hvern djöfullinn væri í gangi. Í byrjun þessa árs fann maður þó að það væri eitthvað meira og betra að fara að gerast. Liðið var þannig stemmt,“ segir Arnór. Hann æfði vel og fór að hugsa betur um sig til þess að losna við meiðsli sem hafa plagað hann annað slagið undanfarin ár.
„Ég fékk að kynnast sjálfum mér betur. Ég fór að skoða sjálfan mig og hlusta á líkamann. Ég ætlaði mér stóra hluti og ég er með frábæran þjálfara sem treystir mér vel. Hann setti mig á vinstri kantinn en gaf mér frjálst hlutverk þar sem ég fæ að fara inn á miðjuna og snúa mér að markinu. Þaðan kemur mest frá mér.“

„Það sem mér finnst sterkast við hans leik og sýnir að hann er tilbúinn á næsta level, er að þetta er leikur þar sem allt er undir. Það að vera bestur í svona leik segir svo mikið um hans karakter. Málið er að Arnór Ingvi er bara töffari. Alvöru töffari en ekki einn af þessum innistæðulausu“

- Jóhann Birnir Guðmundsson


Dvölin í Svíþjóð hefur verið þroskandi fyrir hinn 22 ára gamla Arnór Ingva. „Ég held að ég sé sterkari karakter vegna þess að ég verð að standa á eigin fótum hérna úti. Ég verð reynslumeiri fyrir vikið. Í fyrra vildi ég sanna mig og var þá ekki að hlusta á líkamann. Núna var það þannig að um leið og ég er orðinn þreyttur þá segi ég stopp og hvíli mig.“

Með frammistöðu sinni á þessu ári er hægt að gera ráð fyrir því að stuðningsmenn sænska liðsins muni nafn Arnórs um aldur og ævi. Þýðingarmikill leikur eins og lokaleikurinn gegn Malmö aðskilur oft góða leikmenn og goðsagnir hjá félögum. „Sérstaklega eftir þennan leik, þá hafa sparkspekingar verið að hrósa mér mikið fyrir dugnaðinn og góðan leik. Það er gaman að heyra hrós og fá klapp á bakið annað slagið. Ég fékk mikið að heyra frá stuðningsmönnum að ég væri núna búinn að skrifa nafn mitt í sögubækur félagsins með þessum leik, þetta er eitthvað sem allir munu muna eftir.“

Arnór var valinn efnilegastur í Pepsi-deildinni árið 2013.

Nýtir fiðringinn sem hvatningu

Þetta var eins konar bikarúrslitaleikur. Allt eða ekkert. Arnór segist þrífast á þessum augnablikum og nýtir sér spennuna til hins ítrasta. „Ég er rosalega góður að ná mér niður og höndla smá pressu. Það er bara spurning um hvernig þú nýtir þér stessið og þennan fiðring sem þú ert með í maganum. Ég held að það hjálpi mér þegar mikið er undir. Ég var fullur sjálfstrausts sem og allir í liðinu.“

Stjórnlausar tilfinningar

Þeir sem hafa séð myndband af marki Arnórs og faganaðarlátunum sem fylgja í síðasta leiknum, sjá vel hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir strákinn. „Ég áttaði mig skyndilega á því að við værum búnir að vinna. Ég gat ekki stjórnað tilfinningum mínum og felldi tár í leikslok. Öll þessi vinna sem maður er búinn að leggja á sig og að fá þessi verðlaun fyrir hana, það er ómetanlegt. Líka það að geta sett svip sinn á leikinn með þessum hætti með stoðsendingu og marki.“

 

„Arnór er alvöru töffari“

Jóhann Birnir Guðmundsson hefur reynslu af því að spila í Svíþjóð og einnig með Arnóri hjá Keflavík. Arnór leitaði m.a. ráða hjá Jóhanni áður en hann skrifaði undir hjá Norrköping. Jóhann horfði mikið á sænska boltann í sumar og lofar fyrrum félaga sinn í hástert.
„Hann var rosalega góður, hann er auðvitað bara frábær leikmaður þannig að þetta kemur manni ekkert á óvart. Það kemur samt öllum á óvart í Svíþjóð hversu gott liðið var,“ segir Jóhann Birnir.

„Ég hef aðeins talað við menn sem ég var að spila með þarna úti. Þeir eru rosalega hrifnir af Arnóri enda ekkert skrýtið miðað við tölfræðina. Sérstaklega með þessum lokaleik þar sem hann er þessi Arnór sem við þekkjum, ógnandi, hraður og ákveðinn. Það sem mér finnst sterkast við hans leik og sýnir að hann er tilbúinn á næsta stig, er að þetta er leikur þar sem allt er undir. Það að vera bestur í svona leik segir svo mikið um hans karakter. Málið er að Arnór Ingvi er bara töffari. Alvöru töffari en ekki einn af þessum innistæðulausu.“ Jóhann hefur trú á því að tækifærið komi með landsliðinu innan skamms. „Hann getur náð eins langt og hann langar til. Hann er bara þannig leikmaður að hann hefur allt sem til þarf, hann er fljótur, leikinn og útsjónarsamur og hann vinnur boltann líka af andstæðingnum. Þannig að ég segi bara „sky is the limit.“

Arnor Traustason #9 - Attacking midfielder - Norrköping highlights from Sportic Players Management on Vimeo.

 

[email protected]