Arnór semur við Rapid Vín
Fjögurra ára samningur hjá Suðurnesjamanninum
IFK Norrköping hefur staðfest á heimasíðu sinni að knattspyrnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason muni fara frá félaginu til Rapid Vín í Austurríki eftir EM í sumar. Samkvæmt fréttum frá Austurríki mun Rapid borga meira en tvær milljónir evra fyrir hinn 23 ára Arnór og því verður hann dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.
Arnór ól manninn í Njarðvík en fór yfir til Keflavíkur 15 ára gamall þar sem hann varð einn besti ungi leikmaður eftu deildar. Félögin munu væntanlega bæði hagnast á sölunni á leikmanninum sem leikið hefur með Norrköping síðustu tvö tímabil þar sem hann fagnaði sænska titlinum í fyrra.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Arnóri en hann var í byrjun vikunnar valinn í lokahóp Íslands sem fer á Evrópumótið í Frakklandi í sumar.
Rapid Vín er sigursælasta félagið í sögu Austurríkis en liðið hefur 32 sinnum orðið meistari. Liðið mun enda í öðru sæti á þessu tímabili, sama hvernig lokaumferðin fer um helgina.