Arnór líklega áfram í Svíþjóð
Einbeitir sér að landsliðinu
Knattspyrnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason reiknar með því að leika annað tímabil með sænska meistaraliðinu Norrköping. Miðjumaðurinn öflugi sem fór á kostum í sænsku deildinni hefir verið orðaður við stærri félög í Evrópu að undanförnu en hann sér fram á að taka annað tímabil í Svíþjóð. Arnór var í viðtali við sænska miðilinn nt.se þar sem hann sagðist ekki hafa heyrt af því að tilboð hafi borist í hann.
Í samtali við blaðamann Víkurfrétta sagðist Arnór aðeins geta hugsað sér að yfirgefa sænska liðið ef frábært tækifæri gæfist annars staðar sem myndi ekki hafa áhrif á möguleika hans á því að leika með Íslandi á EM.
Arnór er kominn aftur út til Svíþjóðar eftir jólafrí á Íslandi en innan skamms mun hann halda til Abu Dhabi með landsliðinu, þar sem liðið leikur gegn Finnum og liði Sameinuðu arabísku furstadæmanna.