Arnór Ingvi skoraði tvö gegn liði David Beckham
Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason skoraði tvö mörk í stórsigri New England Revolution á Inter Miami í austurriðli bandarísku MLS-deildarinnar í gær.
Leikið var á heimavelli Miami og Arnór Ingvi kom sínu liði yfir þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu. New England komst í tveggja marka forystu á 27. mínútu með marki frá Teal Bunbury en Arnór var aftur á ferðinni níu mínútum síðar með sitt annað mark (36'). Rétt áður en blásið var til leikhlés skoraði Adam Buksa fjórða mark New England (45'+4). Buksa skoraði fimmta og síðasta mark New England á 83. mínútu og öruggur, fimm marka stórsigur Arnórs og félaga í höfn.
Þetta voru fyrstu mörk Arnórs fyrir New England á tímabilinu en hann hefur komið við sögu í fjórtán leikjum liðsins, tíu sinnum í byrjunarliði og fjórum sinnum af bekknum. New England Revolution er á toppi síns riðils með 30 stig eftir fimmtán umferðir, hefur unnið níu leiki, gert þrjú jaftefli og tapað þremur.
Inter Miami er einna þekktast fyrir að vera í eigu David Beckham en fyrrum samherji hans hjá Manchester United, Phil Neville, er aðalþjálfari liðsins. Inter Miami hefur ekki gengið sem skildi í ár og vermir botn austurriðilsins með einungis átta stig.