Arnór Ingvi sáttur í Vín
„Liðinu hefur ekki gengið nægilega vel en við náðum í góðan útisigur á laugardaginn og vonandi fer þetta að smella aðeins betur hjá okkur,“ sagði atvinnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason en hann leikur með Rapid Wien í Austurríki.
Vínarliðið er í 5. sæti með 20 stig eftir 13 leiki. Arnór Ingvi hefur skorað eitt mark en ekki byrjað reglulega inn á í öllum leikjunum hingað til en Suðurnesjamaðurinn er bjartsýnn þrátt fyrir það. „Þetta kemur allt saman, ég er að leggja mjög hart að mér.“
Hvernig líkar þér þarna í Austurríki?
„Það eru mjög fínar aðstæður hérna úti. Klassa hærri en ég hef verið áður. Vín er virkilega falleg borg og það er gott að búa hér,“ sagði Arnór Ingvi sem komst í heimsfréttirnar á Evrópumótinu í knattspyrnu þegar hann skoraði sigurmark Íslands gegn Austurríki í uppbótartíma.